20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Bakþankar: Núvitund í símastól
Mér verður reglulega hugsað til uppvaxtaráranna, en í minningunni var lífið töluvert einfaldara þá. Kannski er það ímyndun, kannski ekki. Það eina sem ég veit er að þá voru engir gemsar, tölvur eða snjalltæki. Það voru jú útvörp, segulbönd og plötuspilarar, sjónvörp og síðan komu videotækin. Ég man eftir okkur vinkonunum sitjandi við stórt segulbandstæki við upptökur á okkar eigin spjallþætti, sem fór svo á spólur, en fáir voru hlustendurnir. Kannski það hafi verið podcast okkar tíma?
Ef við vinkonurnar þurftum að koma skilaboðum á milli okkar í skólanum skrifuðum við gjarnan á miða og laumuðum í pennaveski hver annarrar.
Myndavélarnar innihéldu filmur sem kostaði sitt að framkalla og því var vandað til verka við hverja ljósmynd. Hver mynd var einstök, dýrmæt.
Mér finnst í minningunni að við höfum verið meira í núvitund, einbeitt okkur að einu í einu. Og það er kannski fátt sem minnir skýrar á það en blessaður símastóllinn. Sérstakur stóll til að sitja í við símtöl. Táknmynd þess að þegar talað var í símann, var bara talað í símann. Auðvitað hefur það áhrif að lengi framan af var snúra í símanum og lítið hægt að fara um með hann, en hvert símtal var samt sem áður heilög stund.
Samtal í núvitund, frá símtóli til símtóls. Það var ekki verið að keyra, elda eða horfa á sjónvarpið á meðan. Það var bara setið í símastólnum.
Í dag eru símtölin allskonar og alls staðar.
Og jafnvel þótt þú svarir ekki, er líklegt að þú þurfir að svara fyrir að hafa ekki svarað. Því í dag er síminn ekki bara sími. Hann sendir skilaboð, er lítið sjónvarp, útvarp og myndavél allt í einu litlu tæki.
Er nema von að símastóllinn veki upp notalega fortíðarþrá eftir að gera bara eitt í einu, þó ekki væri nema stundum?
Huld Hafliðadóttir