„Áfram mínir menn í norður”

KA-Þór 1930. Mynd/aðsend
KA-Þór 1930. Mynd/aðsend

Ingólfur Sverrisson  skrifar

Eyrarðúki

Það var alltaf tilhlökkunarefni um miðja síðustu öld þegar við pabbi fórum á fótboltavöllinn. Búið var að auglýsa kappleik á öðrum hvorum símastaur milli meistaraflokka Þórs og KA á Þórsvellinum og því mikil spenna þegar við feðgar kvöddum mömmu og lögðum brattir af stað.  Komum við í Tonabúð á horni Eyrarvegs og Norðurgötu, pabbi keypti Camel sígarettupakka og eina Freyjukaramellu fyrir mig. Virðulega gengum við síðan norður Norðurgötu, hann púandi sína sígarettu og ég kjammsaði á karamellunni í alsælu.

Við Grenivelli tókum við stefnuna í norðvestur að hliði Þórsvallarins sem var á þeim slóðum sem Linduhúsið er nú. Þarna hafði fjöldi manns raðað sér í kringum knattspyrnuvöllinn sem var girtur af með snæri. Knattspyrnukapparnir voru að hita upp þegar okkur bar að og spennan rafmögnuð. Svo byrjaði ballið og stuðningsmenn liðanna hrópuðu hvatningarorð til sinna manna af öllum lífs og sálar kröftum. Keli setjari var jafnan góðglaður í miðjum áhorfendahópnum og hafði skoðun á öllu sem gerðist á vellinum.  Jónas kennari frá Brekknakoti, hljóp meðfram línunni, hvatti Þórsara ákaft,  baðaði út öllum öngum og hrópaði: „Áfram mínir menn í norður.” Á móti eggjuðu stuðningsmenn KA sitt lið til að sækja að suðurmarkinu þar sem Óli Prey stóð eins og klettur og hirti hvern boltann á fætur öðrum. Í norðurmarkinu stóð Sveinn Kristjáns og sýndi ekki síður fimi og útsjónarsemi þegar hann skutlaði sér þvers og kruss og varði bolta sem virtust nánast komnir í markið.  Kölluðu aðdáendur hans hann þá jafnan „Svenna í stuði.”    

Í þá daga voru leikmenn ekki af verri endanum.  Í sóknarsveit KA var Baldur Árna, sem var svo snar í snúningum og leikinn með boltann að andstæðingarnir vissu ekki hvaðan á þá stóð veðrið, hann á bak og burt með boltann eins og límdan við fæturna. Því var nauðsynlegt að svara honum með samræmdu átaki fjölda manns úr liði andstæðinganna áður en honum tækist að skora mark. Var þá eins gott fyrir Þórsara að hafa annan eins bakkara og Gunnar Óskars sem lét hvorki laust né fast fyrr en allri hættu var bægt frá.  Þótti þá mörgum KA-manninum að framlínumenn þeirra þyrftu að þola meira mótlæti en reglur gerðu ráð fyrir og létu vel í sér heyra. Aftur á móti lofuðu Þórsarar Gunnar fyrir hraustlega framgöngu sem leiddi til töluverðrar háreysti. Í þeirri alvarlegu stöðu sá Keli setjari sér ekki annað fært en að fá sér einn auka.

Í framlínu Þórsara var Hreinn Óskars tígulegur á velli og boltafimur.  Hann sparkaði oft svo hnitmiðað og fast að marki andstæðinganna að auga festi ekki á og vörnum sjaldnast við komið. Ragnar Sigtryggs (Gógó) var einn framherja KA en hann var fyrstur Akureyringa valinn í landsliðið enda snöggur og áræðinn við mark andstæðinganna. Þessir og fleiri snillingar tryggðu okkur spennandi og tvísýnan leik þennan fallega sumardag. Honum lauk með sigri Þórs vegna þess að þeir skoruðu fleiri mörk en KA-menn.  Pabbi var ákaflega kátur með úrslitin enda Þórsari frá blautu barnsbeini. KA-menn báru harm sinn hins vegar karlmannlega í hljóði.  Og við feðgar gengum léttstígir heim.       

Ingólfur Sverrisson   

 

Nýjast