20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Af lífvænlegum ferðaþjónustufyrirtækjum og ólífvænlegum
Það þarf ekkert að velta fyrir sér stöðu atvinnulífsins á landinu þessa dagana. Tekjur hafa nær horfið úr mörgum greinum, atvinnuleysi hefur fimmfaldast á stuttum tíma og í raun sér ekki fyrir endann á ástandinu.
Ein þeirra atvinnugreina sem hvað viðkvæmust er fyrir utanaðkomandi áhrifum er ferðaþjónustan. Sú atvinnugrein sem átti hvað stærstan þátt í því að við náðum að rífa okkur upp eftir efnahagshrunið 2008. Hjálpuðu þar ýmsir þættir til eins og kynningarátak og eldgos sem dæmi, en líka einkenni þessarar atvinnugreinar sem er sveigjanleiki og nýsköpunarkraftur. En þetta er ekki iðnaður, þó margir noti því miður ennþá þetta orðskrípi „ferðamannaiðnaður,“ heldur snýst þetta um að veita þjónustu og fullnægja væntingum ferðamanna og helst að skjóta aðeins yfir þær væntingar. Þjónustan er óefnisleg ef svo má að orði komast og það er alltaf meiri kúnst að standa undir slíkri þjónustu en efnislegri.
Ferðaþjónustan hefur byggst upp úti á landsbyggðunum af eldhugum, gjarnan fjölskyldum, sem hafa séð tækifæri í sínu nærumhverfi. Bæði til að geta haft af því tekjur og atvinnu og til að koma einhverju á framfæri, einhverri sögu úr sínum túnfæti sem gætu þótt áhugaverðar. Þetta hefur orðið til þess að á jaðarbyggðum hafa risið þjónustufyrirtæki í gistingu, veitingum og afþreyingu. Líf hefur aftur kviknað í samfélögum sem hafa átt undir högg að sækja. Ég fullyrði að þessi uppbygging ferðaþjónustunnar sé besta byggðaaðgerð sem átt hefur sér stað. Ég nota þetta orðfæri að „eiga sér stað,“ því hún er að mestu sjálfsprottin án aðkomu opinberra aðila til að byrja með og byggð upp af krafti og hugviti fólks sem hugsaði fram á veginn og sá tækifærin.
En í dag er allt önnur staða uppi. Tekjur hafa nær horfið, mikið atvinnuleysi er framundan og erfitt að meta í dag hversu langvinnt þetta ástand verður. En að tilstuðlan ferðaþjónustunnar er vor í ríkisfjármálum. Skattar og gjöld sem runnið hafa til ríkissjóðs beint og óbeint úr ferðaþjónustunni hafa gert það að verkum að nú er hægt að styðja við atvinnulífið, blása til sóknar í framkvæmdum, styðja við atvinnulausa og standa þétt með fyrirtækjum landsins. Þetta er fordæmalaust ástand svo notað sé vinsælt orð í dag, ekki bara Covid-19 og afleiðingar hennar, heldur líka að hægt sé að bregðast við og styðja við atvinnulíf þjóðarinnar með svo kröftugum hætti.
Það er ekki auðvelt fyrir ríkisstjórnina að drepa alls staðar niður fæti í björgunarleiðangri sínum í einu. Þess vegna verða til björgunarpakkar sem þróast eftir því sem ástandið breytist í samfélaginu. Upplýsingar uppfærast og breytast og við þessu öllu þarf að bregðast. Ferðaþjónustan er mjög mannaflafrek atvinnugrein og því verða margir atvinnulausir þegar ský dregur fyrir sólu. Í gegn um Atvinnuleysistryggingasjóð og Vinnumálastofnun er hægt að hugsa um hag atvinnulausra og koma ýmsum góðum hlutum í verk í þeim tilgangi. En þegar kemur að hag fyrirtækjanna í ferðaþjónustu eru það bankar og fjármálastofnanir sem hafa með það að gera. Í umræðum í samfélaginu er gjarnan talað um að það eigi að koma „lífvænlegum“ fyrirtækjum til aðstoðar, fyrirtækjum sem fyrir C-19 gátu sýnt fram á heilbrigðan rekstur. Ólífvænleg fyrirtæki eru þá væntanlega þau sem voru hinum megin á ásnum. En hvernig á að meta þetta? Er það bara út frá tekjum og skuldastöðu eða verða aðrir þættir teknir inn í eins og svæðislegt mikilvægi rekstrar úti á landsbyggðunum? Verður staðið vörð um þessa aðila sem hafa byggt upp ferðaþjónustu í smærri samfélögum og gætt þau lífi á nýjan leik?
Eðli ferðaþjónustunnar er þannig að það er ekki hægt að byggja hana upp á stórum fyrirtækjum sem sölsa undir sig starfsemi minni fyrirtækja. Við verðum að hafa til staðar lítil og meðalstór fyrirtæki sem vita hvað best að persónuleg þjónusta og reynsla gesta er það sem telur. Þessi fyrirtæki mega alls ekki detta úr rekstri því þá missum við mun meira úr ferðaþjónustunni en bara krónur og aura. Þá missum við einkenni, sérstöðu, persónulega nánd og samskipti. Land sem ekki hefur þessi atriði í forgrunni þegar kemur að uppbyggingu ferðaþjónustu, verður ekki gott ferðamannaland.
Ég vona innilega að bankar og fjármálastofnanir taki höndum saman og hjálpi litlu fyrirtækjunum á þessum erfiðu tímum. Það að vera með lífvænlegt fyrirtæki í höndunum snýst ekki bara tekjur og skuldir, heldur þarf það líka að snúast um samfélagslegt mikilvægi og búsetukosti úti á landsbyggðunum.
-Karl Jónsson, framkvæmdastjóri Markvert ehf og verkefnastjóri Matarstígs Helga magra í Eyjafjarðarsveit