Af bogum og flugdrekum Eyrarpúka
Ingólfur Sverrisson skrifar
Í mínu ungdæmi á Eyrinni fór oft drjúgur tími í að smíða eigin leikföng, vopn og verjur. Á þeim tíma var ekki mikið úrval slíkra hluta í búðum og enn síður peningar til að fjárfesta í þeim þá sjaldan þeir voru á boðstólum. Því var sá einn kostur að smíða sjálfur helstu nauðsynjahluti á þessu sviði eða að sitja með hendur í gaupnum sér leikfangalaus, vopnlaus og berskjaldaður fyrir árásum ímyndaðra óvina. Í þá daga höfðum við marga góða fagmenn fyrir augunum hér og þar á Eyrinni sem smíðuðu úr tré og járni, allt frá smæstu hlutum til báta og skipa. Handbrögð þeirra og útsjónarsemi var okkur góður skóli og ekki spillti fyrir að þeir skildu gjarnan eftir sig ýmiskonar efnisafganga sem við gátum nýtt þeim að meinalausu.
Nói bátasmiður var góður heim að sækja og tók okkur strákunum alltaf vel þegar við vorum að gramsa og leita að álitlegu smíðaefni. Langar eikarspýtur voru mjög eftirsóttar til að tálga, fægja og smíða boga úr með sterku bandi sem strengt var á milli endanna. Mikla nákvæmni þurfti til að tálga þynnstu spýturnar þar til þær urðu bærilegar örvar. Ef þær voru ekki þráðbeinar áttu þær til að svífa allt annað en þeim var ætlað og gátu þá sett bogmanninn í verulegan vanda. En góður bogi og þráðbeinar örvar voru einhver eigulegustu vopn sem um gat á norðanverðri Eyrinni.
Til þess að búa til góðan steinboga var vænlegt að fara fyrst niður að Vélsmiðjunni Atla og grafa þar upp stífan vír. Beygja hann síðan saman í miðju og svo til sitt hvorrar hliðar handarbreidd ofar og þaðan upp aftur með krókum efst. Þessu næst var gott að leita til Hannesar hjólhesta á Hólabrautinni og fá hjá honum ónýtar hjólaslöngur sem maður klippti niður í sentimetra breiða búta og smeygði þeim hverjum ofan á annan upp á skaftið þannig að þar myndaðist gott hald. Þá var því sem eftir var af slöngubútunum fléttað saman í tvær tíu til fimmtán sentimetra lengjur, þær festar hvor á sinn krókinn efst og síðan saman á leðurpjötlu frá Halldóri söðlasmið í hinn endann. Hún hafði það hlutverk að geyma steinana sem skotið var úr boganum. Úr þessu varð ógnarlegt vopn sem skaut mörgum góðum drengnum skelk í bringu.
Öllu friðvænlegra var þó þegar við settum saman flugdrekana okkar með þunnar spýtur í kross og bréfpappa sem strengdur var yfir. Síðan þurfti að gera mikinn hala aftur úr sjálfum drekanum þar sem rifrildi úr Mogganum, Tímanum og Þjóðviljanum voru hnýtt í slaufur með fet millibili. Þegar hafgolan kom svo eftir hádegi söfnuðumst við Eyrarpúkarnir gjarnan hressir og kátir niður á tún með drekana okkar. Tígulega hófust þeir til himins og svifu um loftin blá okkur og kúnum hans Tryggva skósmiðs, sem þarna voru á beit, til mikillar ánægju. Þær litu upp og ranghvolfdu kýraugum sínum þegar þær horfðu á þessi skrítnu loftför sem hnigu og lyftust með golunni og því hvernig við kipptum í strengina í gleði okkar á hlaupum fram og aftur um túnið.
Ingólfur Sverrisson