Að vera geggjaður
Hin síðari ár hefur notkun lýsingarorða breyst töluvert og það svo að ég held ekki alltaf áttum í þeim bægslagangi. Nú er framganga einstaklinga og liðsheilda ekki lengur frábær, afbragð, yfirgengileg, ofsalega góð, stórkostleg eða í hæstu hæðum. Nei, þeir sem sýna afbrags frammistöðu hafa um hríð verið skilgreindir geðveikir og til að rýna þá veiki nánar er á allra síðustu tímum mikið talað um geggjun. Tiltekin keppnislið og einstaklingingar hafa sýnt svo góða frammistöðu að hún er ýmist sögð geggjuð eða keppendur sjálfir geggjaðir. Engum virðist detta neitt annað orð í hug og hver lepur heiti þessa alvarlega sjúkdóms upp eftir öðrum til að lýsa hrifningu sinni og úr verður aumkunarverð einsleitni.
Stundum verður þetta hallæri svolítið broslegt eins og þegar landsliðsmarkmaðurinn í fótbolta, sem gerði nýlega samning við lið á meginlandinu, er leikur í deild afburðaknattspyrnumanna. Þá sagði hann að þetta væri gríðarlegt tækifæri fyrir sig því leikmenn sem hann myndi spila með og á móti væru allir geggjaðir – hvorki meira né minna. Ég spurði sjálfan mig að því hvernig væri að vera innan um geggjaða menn dægrin löng því þeir ráða ekki alltaf við sig. Við slíkar aðstæður hlýtur að vera teflt á tvær hættur. Ekki dettur mér hug að þeir sem komast svona að orði ætli vísvitandi að gera grín að veikindum eins og geðveiki en þá er spurningin hvernig þeim sem þjást af þessum erfiða sjúkdómi líður undir slíkri síbylju.
Svo verður maður vitni að því að tiltekinn íþróttafréttamaður hefur með ógnar hávaða og bægslagangi lýst leikjum á heimsmeistaramótinu í sjónvarpinu og notar umrætt lýsingarorð sífellt; góðir leikmenn eru undantekningarlaust geggjaðir og til að stigmagna lýsinguna verða þeir væntanlega næst sturlaðir og síðan vitskertir vegna vasklegrar framgöngu. Þegar hæst lætur úr þessari átt hefur hvarflað að mér að slíkir lýsendur gætu sjálfir verið þjakaðir af þeim alvarlega sjúkdómi sem hér hefur verið gerður að umræðuefni. En það er auðvitað önnur saga.
Eða eins og Flosi Ólafsson sagði forðum: "Það er svo geggjað að geta hneggjað."