Að heiðra þjóðskáld
Flestar menningarþjóðir leggja mikið upp úr að minnast atgervisfólks svo sem rithöfunda og tónskálda og sýna þeim virðingu og þakklæti. Þess vegna má víða í kirkjugörðum erlendis sjá vandaða bautasteina á gröfum slíkra snillinga auk þess sem leiðin eru alla jafna vel hirt og snyrtileg. Þangað er gaman að koma og upplífgandi fyrir sálartetrið. Það voru því vonbrigði þegar undirritaður vitjaði leiðis þjóðskáldsins Matthíasar Jochumssonar í kirkjugarðinum á Akureyri á dögunum.
Eftir að hafa leitað árangurslaust að leiðinu í elsta hluta kirkjugarðsins gafst ég upp og snéri mér til starfsmanna í húsinu þar. Þeir tóku mér ljúflega og einn þeirra var svo vinsamlegur að fara með mér út í garð til að finna leiðið. Eftir að hafa skoðað nokkur og nuddað af einum legsteininum, pírt augu og rýnt vel, kom í ljós nafn séra Matthíasar. Leið mér þá eins og við hefðum ljóstrað upp vel varðveittu leyndarmáli. Þarna leyndist sem sagt gröf þjóðskáldsins og heiðursborgara Akureyrar, Matthíasar Jochumssonar. Eins og sést á meðfylgjandi mynd er letrið á legsteininum orðið svo máð að það er nánast ólæsilegt enda rösk eitt hundrað ár síðan hann var jarðsettur þarna. Að auki er leiðið orðið ansi lúið og greinilega lítið ef nokkuð um það hirt.
Þrátt fyrir að bærinn hafi sannarlega sýnt skáldi sínu virðingu, m.a. með myndastyttu í Lystigarðinum og ræktarsemi við hús hans á Sigurhæðum er samt sem áður ekki vansalaust hvernig komið er fyrir legstað hans í kirkjugarðinum. Hér þarf að gera bragarbót svo sómi verði að síðasta dvalarstað þessa mikla skáldjöfurs.
Því bíður það verðuga verkefni að endurreisa grafreitinn og fegra, koma þar upp myndarlegum og glæsilegum legsteini og jafnvel myndastyttu. Þá geta gestir og gangandi hiklaust streymt að þessum minningarreit og átt þar góða stund, hugleitt afrek séra Matthíasar og þakkað honum fyrir þann ómetanlega fjársjóð sem hann gaf þjóð sinni. Þetta gera flestar menningarþjóðir til heiðurs sínu afburða listafólki og þykir víðast hvar sjálfsagður hlutur. Akureyringar hafa vissulega ástæðu til að vera stoltir af sínu þjóðskáldi, heiðursborgara og mannvini; því er löngu tímabært taka til hendi og berja í þann brest sem hér hefur verið gerður að umræðuefni.