Vilji og skilningur á mikilvægi þess að efla list- og verkgreinakennslu í grunnskólum Akureyrar

Myndir Kristín Jóhannesdóttir
Myndir Kristín Jóhannesdóttir

Grunnskólar Akureyrarbæjar uppfylla jafnaði viðmiðunarstundaskrá þegar kemur að kennslu í list– og verkgreinum samkvæmt Aðalnámskrá grunnskóla en í sumum greinanna tekst þó ekki að uppfylla viðmið í öllum árgöngum þrátt fyrir útsjónarsemi og hagræðingu í skólastarfi. Þetta á einna helst við um tónmennt og dans þó smíðar og heimilisfræði hafi einnig verið nefnt. Helsta ástæða þess er skortur á fagmenntuðum kennurum m.a. vegna mikillar samkeppni á vinnumarkaði. Þetta kemur fram í samantekt fræðslu- og lýðheilsusviðs um kennslu og umgjörð list- og verknáms í grunnskólum á Akureyri og kynnt hefur verið í fræðslu- og lýðheilsuráði. Ráðið mun nú meta stöðuna og mögulega setja fram tillögur um aðgerðir í þeim tilgangi að auka vægi list- og verkgreina í starfi skólanna.

„Sums staðar setur aðstaða og búnaður okkur skorður, stofurnar rúma til að mynda ekki alltaf allan nemendafjöldann og í sumum skólum háttar svo til að aðbúnaður er gamall eða jafnvel ekki til í skólunum,“ segir Kristín Jóhannesdóttir sviðstjóri fræðslu- og lýðheilsusviðs Akureyrarbæjar. Flestir skólanna töldu þó að aðstaða væri góð í flestum greinum, tónlistaraðstaðan þó lökust, og rými til slíkrar kennslu ekki til staðar í sumum skólunum þar sem hún hefur þurft að fara undir aðra kennslu. Í skólunum eru list- og verkgreinarýmin vel nýtt.

 

Mönnun áskorun

Kristín segir að ein helsta áskorun sem skólarnir standa frammi fyrir sé mönnun. Ekki reynist alltaf auðvelt að ráða sérhæfða list- og verkgreinakennara. Einnig er takmarkað fjármagn til að endurnýja tæki og tól,“ segir Kristín. Hún bendir á mikilvægi þess að skólasamfélagið og foreldrar beri jafn mikla virðingu fyrir námi í list- og verkgreinum og bóklegu námi, en ákveðin tilhneiging virðist vera til að óska frekar eftir leyfi í list- og verkgreinum og valgreinum, sem þó eru mikilvægur hluti af námskrá.

Kristín Jóhannesdóttir sviðsstjóri fræðslu- og lýðheilsusviðs

Tækifæri

Eitt af því sem skólafólk bendir á að bæjaryfirvöld geti gert til að auka magn og gæði list- og verkgreinakennslu í grunnskólum er að auka fjármagn til efnis- og tækjakaupa, endurnýja tæki og nútímavæða þau. Þá hafa stjórnendur bent á að sveitarfélagið geti aukið kennslukvóta til skóla en það skapar aukið svigrúm til list- og verkgreinakennslu, en sú kennsla fer jafnan fram í minni námshópum en bóklegt nám. Góð aðstaða og búnaður er líklegt til að laða að góða kennara. Eins nefna stjórnendur tækifæri felast í aukinni samvinnu við listalífið á Akureyri og tónlistarskólann, en samræður fara einmitt fram um þessar mundir um samstarf við Tónlistarskólann á Akureyri um aukna tónlistarkennslu í grunnskólum.

Margt gott og jákvætt

Kristín nefnir að margt sé í góðum og jákvæðum farvegi. Leiklist hafi aukist í eldri bekkjum skólanna og það megi rekja til Fiðrings, hæfileikakeppni sem efnt hefur verið til undanfarin tvö ár og notið vaxandi vinsælda. Þar er um að ræða samstarf Maríu Pálsdóttur, Akureyrarbæjar, MAk og nærliggjandi sveitarfélaga. SSNE hefur nú komið inn í það verkefni með rausnarlegu fjárframlagi. Þá hefur upplestarkeppnin Upphátt sem er fyrir nemendur í 7. bekk þróast með árunum og gefur keppnin tækifæri til að ýta undir sköpun í myndlist með veggspjaldasamkeppni og tónlist með tónlistarflutningi á lokahátíð í samstarfi við Tónlistarskólann á Akureyri.

Útsjónarsamt starfsfólk allt af vilja gert

„Það er mikill vilji og skilningur á mikilvægi þess að efla list- og verkgreinakennslu í grunnskólum Akureyrarbæjar. Skólar búa yfir frábærum mannauð þegar kemur að list- og verkgreinakennslu. Starfsfólkið er allt af vilja gert og útsjónarsamt varðandi búnað og aðstöðu og gera það besta úr því sem það hefur. Undanfarið hafa skólar unnið að því að kaupa nútímatæki til hönnunar og sköpunar, s.s. má sjá í lítilli útgáfu Fab Lab stofu í Lundarskóla sem inniheldur laserskera, vínilskera og þrívíddarprentara sem nemendum í samvali í grunnskólum Akureyrarbæjar býðst að nýta. Úr þeirri vinnu verða m.a. til ljós, símastandar, lyklakippur og merkingar á boli og veggi. Fleiri skólar eiga ýmis tæki, s.s. skurðarvélar og þrívíddarfræsara og eru þau aðallega nýtt af nemendum í list- og verkgreinatímum. Þar hanna nemendur t.d. hugmyndir sínar í forritum á borð við Inkscape og ProCreate, svo þarna fer vel saman vinna í upplýsingatækni, hönnun nýsköpun.“

 

 

Nýjast