Vikudagur kemur út í dag

Vikudagur kemur út í dag, miðvikudaginn 20. maí og er fyrr á ferðinni þessa vikuna vegna Uppstigningardags. Blaðið fer nú í stutt páskafrí og kemur næst út fimmtudaginn 2. maí. Í blaði vikunnar er farið um víðan völl, áhugaverðar fréttir, mannlíf, íþróttir og menning.

Meðal efnis í blaðinu:

-Séra Svavar Alfreð Jónsson, sóknarprestur í Akureyrarkirkju, sendir frá sér ljósmyndabókina Gljúfrabúar og giljadísir um mánaðarmótin og fjallar bókin um eyfirska fossa. Bókin, sem gefin er út af Bókaútgáfunni Hólum, hefur verið í smíðum í langan tíma en hugmyndina fékk Svavar þegar hann varð fimmtugur fyrir tíu árum síðan.

-Örveruvöxtur hefur greinst í þremur grunnskólum á Akureyri undanfarin misseri. Verið er að vinna að úrbótum í Lundarskóla en í mörg ár hefur starfsfólk skólans kvartað undan óþægindum sem hugsanlega megi rekja til myglusvepps. Enn á eftir að skoða aðra grunnskóla og verður það gert síðar á þessu ári. Rætt er við Karl Frímannsson fræðslustjóra Akureyrarbæjar í blaðinu.

-Óhætt er að segja að veðurguðirnir hafi verið með okkur í liði þegar sundlaugar landsins opnuð aftur eftir samkomubann sl. mánudag. Á Akureyri var rjómablíða og þéttsetið í Sundlaug Akureyrar. Elín H. Gísladóttir, forstöðumaður sundlaugarinnar, segir aðsóknina vera góða fyrstu dagana.

-Elísabet Ásgrímsdóttir heldur um Áskorendapennan þessa vikuna og skrifar áhugaverðan pistil í blaðið.

-Í Hús vikunnar fjallar Arnór Bliki Hallmundsson um Samkomuhúsið; Hafnarstræti 57.

-Ágreiningur er á milli Akureyrarbæjar og stjórnvalda um rekstur hjúkrunarheimila. Á síðasta fundi bæjarráðs Akureyrar voru lögð fram endurskoðuð drög að samkomulagi um nýtt hjúkrunarheimili í bænum. Ríkið krefst þess af bænum að hann ábyrgist rekstur hjúkrunarheimilis í Lögmannshlíð sem stendur til að byggja, að öðrum kosti verði það ekki byggt.

-Handboltakappinn Andri Snær Stefánsson er Íþróttamaður vikunnar að þessu sinni. Andri Snær er leikmaður KA og hefur verið lengi að í boltanum en hóf meistaraflokksferilinn með liði KA árið 2003. Á handboltavellinum gengur Andri Snær jafnan undir nafninu „Stálmúsin“ enda gefur hann aldrei tommu eftir. 

Þetta og meira til í Vikudegi í dag. Hægt er að gerast áskrifandi með því að smella hér. Áskriftarsíminn er 460-0750 og 860 6751. Einnig er hægt senda póst á askrift@vikudagur.is

 

Nýjast