Vikudagur fagnar 20 ára útgáfuafmæli
Þessa vikuna eru 20 ár síðan Vikudagur kom fyrst út. Hjörleifur Hallgríms stofnaði blaðið árið 1997 en fyrsta blaðið kom út þann 5. desember sama ár. Núverandi ritstjóri blaðsins er Þröstur Ernir Viðarsson en hann tók við sem ritstjóri vorið 2014 eftir að hafa starfað sem blaðamaður frá árinu 2008.
„Þetta eru merkileg tímamót. Fyrir mig hefur þetta verið skemmtilegur, krefjandi og gefandi tími síðan ég tók við ritstjórn blaðsins og það er sannarlega heiður fyrir mig að stýra þessu rótgróna blaði. Ég hlakka til komandi verkefna og stefnan er að blaðið vaxi og dafni áfram,“ segir Þröstur Ernir og bætir við:
Þröstur Ernir Viðarsson ritstjóri Vikudags.
„Staðarmiðlar gegna mikilvægu hlutverki í samfélaginu; þeir veita mikilvægt aðhald, miðla fréttum úr nærsamfélaginu, fjalla um fólk og áhugaverða hluti á svæðinu og eru einnig vettvangur fyrir skoðanaskipti. Þarna liggur sérstaða staðarblaðs eins og Vikudags.“
Um auglýsingar og áskrift að blaðinu sér Gunnar Níelsson en hann hóf störf árið 2008. „Ég er það heppinn maður að mér finnst skemmtilegt að fara í vinnuna. Það er krefjandi en gaman að safna auglýsingum í áskriftarblað og fjölga áskriftum á þessum tíma fjölmiðlunar,“ segir Gunnar. „Þetta er hressileg barátta og hún er gefandi.“
Gunnar Níelsson sölustjóri Vikudags.
„Dagarnir voru oft langir“
Kristján Kristjánsson var einna lengst ritstjóri blaðsins eða í sex og hálft ár. „Þessi tími á Vikudegi var að mörgu leyti góður, enda var ég svo heppinn að vinna með góðu fólki, bæði á blaðinu sjálfu og í Ásprenti, þar sem umbrot og prentun fór fram,“ segir Kristján. „En þetta var líka gríðarlega krefjandi tími og staðreyndin er sú að ritstjórnin var of fáliðuð," segir Kristján.
„Vikudagur var ekki flokkspólitískt blað undir minni stjórn, eða átti alla vega ekki að vera það, heldur barðist ég/blaðið fyrir því að þetta svæði sem við búum á fengi að vaxa og dafna. Í gangi var svona landsbyggðarpólitík og það voru skrifaðar margir leiðarar og fréttir um mikilvægi Vaðlaheiðarganga sem dæmi. Það var því stór stund þegar ákveðið var að ráðast í þá framkvæmd.
Kristján Kristjánsson fyrrum ritstjóri blaðsins ásamt Borghildi eiginkonu sinni. Mynd/Þórður Ingi Marelsson.
Einnig er eftirminnilegt þegar Llistinn hans Odds Helga Halldórssonar, náði hreinum meirihluta í bæjarstjórn Akureyrar árið 2010. Síðustu tvo fimmtudaga fyrir þær kosningar voru birtar Gallup kannanir í Vikudegi um fylgi framboðanna sem buðu þá fram og fór blaðið í öll hús í bænum í bæði skipti. Þessar kannanir höfðu afgerandi áhrif á úrslit kosninganna, ekki bara að mínu mati, heldur fjölmargra annarra. Ekki það að Vikudagur hafi ætlað að stjórna því hverjir yrðu við stjórnvölinn eftir kosningar, heldur þróaðist atburðarásin með þessum hætti.“
Hefur séð um umbrotið frá upphafi
Ásdís Ívarsdóttir prentsmiður hefur séð um umbrot á blaðinu frá upphafi. „Mér finnst ótrúlegt að það séu 20 ár síðan blaðið kom fyrst út. Ég er búin að vinna með fjölda fólks á þessum tíma sem hefur verið ótrúlega skemmtilegt,“ segir Dísa. Spurð hvort starfið hennar hafi breyst
mikið í gegnum tíðina segir Dísa: „Ekki í grunninn, en myndvinnslan hefur einfaldast mikið, frá því að þurfa að skanna myndir og yfir í það stafræna. Það koma náttúrlega alltaf breytt vinnubrögð með nýjum ritstjórum og þeir hafa verið nokkrir. Vinnan fer samt í meiri rútínu eftir því sem árin verða fleiri,“ segir Dísa.
Ásdís Ívarsdóttir prentsmiður hefur séð um umbrot á blaðinu frá upphafi.
Ítarlegra er fjallað um þessi tímamót í prentútgáfu blaðsins.