Vikublaðið kemur út í dag

Vikublaðið kemur út í dag og er blaðið að vanda stútfullt að frétta-og mannlífsefni af Eyjafjarðarsvæðinu og í Þingeyjarsýslum.

Meðal efnis í blaðinu:

*Töluverðar umræður hafa verið um hjólreiðar í Vaðlaheiðargöngum undanfarna daga en ekki er leyfilegt að hjóla í gegnum göngin.  Oddur Helgi Halldórsson, fyrrum bæjarfulltrúi á Akureyri og baráttumaður fyrir Vaðlaheiðargöngum á sínum tíma, vakti athygli á málinu er hann skrifaði grein í blaðið nýverið þar sem hann gagnrýndi mjög að ekki sé leyfilegt að hjóla í gegnum göngin. Spurður út í málið segir Valgeir Bergmann Magnússon framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga að þetta snúist aðallega snúast um öryggismál.

*Í lok júlí voru 186 skráðir atvinnulausir á félagssvæði Framsýnar stéttarfélags í Þingeyjarsýslum eða 5%. Á sama tíma er skráð atvinnuleysi á landsvísu 8,8%.Flestir eru skráðir í fjölmennasta sveitarfélaginu, Norðurþingi eða 140 manns. 20 eru á skrá í Skútustaðahreppi, 25 í Þingeyjarsveit og einn í Tjörneshreppi.

*Auður Katrín Víðisdóttir frá Laugum í Reykjadal dúxaði í innanhússhönnun við virtan alþjóðlegan skóla í Mílanó á Ítalíu. Skólinn heitir við Istituto Europeo di Design (IED) og lauk Auður námi í lok júlí með hæstu mögulegu einkunn eða 110 stig af 110 mögulegum.

*Guðmundur Haukur Sigurðsson framkvæmdastjóri Vistorku skorar á bæjaryfirvöld og bæjarbúa á Akureyri í að gera með sér Samgöngusáttmála sem snýst um að hætta smám saman að nota olíu í samgöngum, fækka bílakílómetrum og fjölga göngu-, hjóla- og strætóferðum.

*Samkomutakmarkanir Landlæknis hafa haft talsverð áhrif á kirkju starf á Húsavík. Í samtali við Vikublaðið sagði Sólveig Halla Kristjánsdóttir sóknarprestur að fyrst og fremst hefði þetta áhrif á athafnir. 

*Sagnalist  - skráning og miðlun sf. hefur í sumar unnið að hlaðvarpsþáttum í samstarfi við Grenndargralið um veru setuliðsins í Hlíðarfjalli á árum seinni heimsstyrjaldarinnar og fer fyrsti þátturinn í loftið í dag. Þættirnir bera yfirskriftina Leyndardómar Hlíðarfjalls og eru þeir fimm talsins. Brynjar Karl Óttarsson höfundur þáttanna segir hugmyndina að þeim hafa kviknað í einni af vettvangsferðum hóps sem kallar sig Varðveislumenn minjanna upp í fjallið.

*Sigríður Ýr Unnarsdóttir sér um matarhornið þessa vikuna. Hún vinnur hjá Slökkviliðinu á Akureyri á daginn og er með SUP ferðir á Pollinum á kvöldin. Sigríður er því mikið fyrir einfalda og fljótlega matreiðslu og bíður lesendum upp á tvær úrvals vegan uppskriftir.

*Í sumar hafa staðið yfir miklar framkvæmdir í Reykjahlíðarkirkjugarði til að bæta aðgengi fyrir fatlaða og aldraða. Þar hefur Garðvík ehf. unnið að gerð göngustígs um garðinn. Um er að ræða áframhald framkvæmda sem hófust á síðasta ári þegar aðgengi að kirkjudyrum var bætt og hellulögn við kirkjuna lyft til að uppfylla reglugerð um aðgengi fyrir alla.

 Smelltu hér til að gerast áskrifandi.

Nýjast