Vikublaðið kemur út í dag

Vikublaðið kemur út í dag, fimmtudaginn 18. febrúar og að vanda er farið um víðan völl í blaðinu.

Meðal efnis:

*Lengsta hundasleðahlaup á Íslandi verður haldið á Húsavík 19. Febrúar. Hlaupið er 150 kílómetrar og ferðast keppendur með fjóra til sex hunda. Einn af keppendum er Húsvíkingurinn Hilmar Freyr Birgisson en hann hefur verið mikill hundaáhugamaður um árabil og á sex Husky-hunda. Vikublaðið ræddi við Hilmar á dögunum.

*Tónlistarmaðurinn Valmar Valjaots flutti til Íslands frá Tallinn í Eistlandi árið 1994 og hefur búið hér á landi í um 26 ár. Tilviljun dró hann hingað til lands á sínum tíma og segir hann það forréttindi að geta lifað sem tónlistarmaður. Hann er sannkallaður þúsundþjalasmiður þegar kemur að tónlist og getur nánast leikið á hvaða hljóðfæri sem er. Valmar er Norðlendingur vikunnar að þessu sinni og situr hér fyrir svörum.

*Von er á miklum fjölda gesta norður til Akureyrar um helgina þar sem vetrarfrí er í mörgum grunnskólum landsins. Nær allir aðgöngumiðar að skíðasvæðinu í Hlíðarfjalli næstu daga eru að seljast upp en mikil aðsókn hefur verið í fjallið undanfarnar helgar. Vegna fjöldatakmarkana má aðeins taka við fjórðungi þess fjölda sem venja er að taka á móti á skíðasvæðinu. María H. Tryggvadóttir, verkefnisstjóri ferðamála hjá Akureyrarstofu, segir mikið bókað á gististöðum og veitingahúsum.

*Hrönn Björgvinsdóttir fór í leikhús að sjá sýninguna Fullorðin hjá Menningarfélagi Akureyrar, áður var verkið sýnt í Samkomuhúsinu en vegna mikillar eftirspurnar eru nú aukasýningar í Hofi. Hrönn skrifar umfjöllun um sýninguna sem vakið hefur mikla athygli.

Leikarar sýningarinnar, þau Birna Pétursdóttir, Árni Beinteinn Árnason og Vilhjálmur B. Bragason eru einnig höfundar verksins þar sem þau fjalla á sprenghlægilegan hátt um grátbroslegar hliðar þess að fullorðnast.

*Matgæðingur vikunnar er Helgi Héðinsson sem hefur síðustu 15 ár byggt upp rekst­ur á Geiteyj­ar­strönd í Mý­vatns­sveit í ferðaþjón­ustu, fisk­vinnslu og við sauðfjár­bú­skap. Hann er í dag oddviti Skútustaðahrepps og gefur kost á sér á lista Fram­sókn­ar­flokks­ins í Norðaust­ur­kjör­dæmi fyrir komandi þingkosningar. Þá er hann formaður Veiðifélags Mývatns og því ætti ekki að koma á óvart hvaða réttir eru galdraðir fram að þessu sinni.

*Stjórn Akureyrarstofu hefur samþykkt að húsið Sigurhæðir verði auglýst til leigu og verður kallað eftir hugmyndum um notkun og rekstur hússins án búsetu. Hilda Jana Gísladóttir, formaður stjórnar Akureyrarstofu, segir að búið sé að ráðast í töluverðar lagfæringar á húsinu en þær miðuðu ekki við búsetu.

*Í vikunni koma 1000 skammtar af Pfizer bóluefninu og tæplega 80 skammtar af Moderna bóluefninu til Norðurlands. Pfizer bóluefnið er ætlað fyrir seinni bólusetningu hjá þeim sem voru bólusettir 19. – 25. janúar.  Moderna bóluefnið verður meðal annars nýtt til að bólusetja starfsfólk heimahjúkrunar og starfsfólk í dagdvölum á Akureyri og í nærliggjandi byggðum. 

*Inga Dagný Eydal skrifar bakþanka vikunnar og Sigríður Huld Jónsdóttir heldur um Áskorandapennann.

Smelltu hér til að gerast áskrifandi. 

Nýjast