20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Vikublaðið kemur út í dag
Vikublaðið kemur út í dag og að vanda er farið um víðan völl í blaðinu.
Meðal efnis:
*Kraftlyftingamaðurinn Viktor Samúelsson úr KFA var valinn íþróttakarl Akureyrar árið 2020 á dögunum en kjörinu var lýst á verðlaunahófi á vegum Íþróttabandalags Akureyrar og frístundaráðs Akureyrarbæjar í Menningarhúsinu Hofi. Viktor á langan afreksferil að baki og er þetta í fimmta skipti sem hann er kjörinn íþróttakarl Akureyrar. Vikublaðið tók Viktor tali og spurði hann út í árangurinn, sportið og ýmislegt fleira.
*Á Þriðjudaginn sl. fór fram fyrsti íbúafundur af fjórum um mögulega sameiningu Þingeyjarsveitar og Skútustaðahrepps. Samstarfsnefnd um sameiningu sveitarfélaganna tveggja hefur teiknað upp mynd af því hvernig sameinað sveitarfélag gæti litið út og á fundunum verður sú mynd útskýrð fyrir íbúum. Fjallað er ítarlega um málið í blaðinu.
*Hildigunnur Svavarsdóttir er framkvæmdastjóri hjúkrunar og framkvæmdastjóri bráða-, fræðslu- og gæðasviðs á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Starfið er krefjandi og tekist á við áskoranir á hverjum degi. Óhætt er að segja að kórónuveiran hafi sett mark sitt á undanfarna mánuði. Hildigunnur reynir að taka ekki vinnuna með heim og hreinsar hugann með allskyns útivist og hreyfingu sem er eitt hennar helsta áhugamál. Hildigunnur er Norðlendingur vikunnar og situr fyrir svörum.
*Þekkingarstarfsemi í Þingeyjasýslum og hið nýja frumkvöðlasetur sem fengið hefur vinnuheitið „Hraðið“ leitar nú að nýjum húsnæðiskosti eftir að viðsnúningur varð í samningaviðræðum við Norðlenska. Eftir alllangar viðræður um húsnæðisleigu eða sölu á gamla frystihúsinu á Húsavík varð óvæntur viðsnúningur hjá húseigandanum Norðlenska nýverið og hefur fyrirtækið hafnað kauptilboði í efri hæðir hússins og hefur tilkynnt stofnununum sem hlut eiga að máli að fallið sé frá leigu eða sölu á húsinu. Meira um málið í Vikublaðinu sem kemur út á fimmtudag.
*Skíðavertíðin í Hlíðarfjalli hefur farið vel af stað það sem af er vertíðinni og gengið vel að virða sóttvarnarreglur. Skíðaþyrstir bíða hins vegar enn í ofvæni eftir nýju stólalyftunni sem upphaflega átti að vera tilbúin í desember 2018 en opnun hennar hefur ítrekað verið frestað síðan.
*Þóra Guðný Baldursdóttir heldur um Áskorandapennan og skrifar pistil um heilsu og séra Svavar Alfreð Jónsson skrifar bakþanka vikunnar.
*Íþróttir eru á sínum stað þar sem m.a. er fjallað um handbolta, blak og körfubolta.
Smelltu hér til að gerast áskrifandi.