Vikublaðið kemur út í dag

Vikublaðið kemur út í dag, fimmtudaginn 16. Júlí. Hægt er gerast áskrifandi með einföldum hætti með því að smella hér. Blaðið er einnig fáanlegt í völdum verslunum.

Meðal efnis í blaðinu:

*Jóhannes Sigurjónsson hefur þjónað Húsvíkingum og nærsveitungum í rúm fjörutíu ár sem blaðamaður og ritstjóri. Fyrst á Víkurblaðinu sem stofnað var 1979 og síðar á þingeyska fréttablaðinu Skarpi. Um mánaðarmótin síðustu ákvað hann að láta staðar numið og segist ánægður með þá ákvörðun. Jóhannes tók á móti blaðamanni Vikublaðsins fyrir skemmstu og fór yfir ferilinn.

*Íbúar í Innbænum á Akureyri gagnrýna ósið margra ökumanna sem nota gangstétt sem akrein meðfram Aðalstræti. Ólafur Kjartansson, íbúi við Aðalstræti, segir að gangstéttin sé þétt upp að húsvegg svo að fólk sem stígur fyrir norðurhorn þessara húsa inn á gangstéttina eigi í hættu að verða undir bíl sem ekið er norður eftir gangstéttinni.

*Ekkert lát er á Júró-gleðinni á Húsavík eftir að stórmyndin Eurovisi­on Song Contest: The Story of Fire Saga, var frumsýnd á streymisveitunni Netflix í júní. Það þarf auðvitað ekki að fjölyrða um það að myndin var að stórum hluta tekin upp á Húsvík en í myndinni kemur sumarsmellur ársins fyrir; Ja Ja Ding Dong. Myndin hefur reynst hin mesta landkynning fyrir Húsavík og hafa bæjarbúar tekið athyglinni fagnandi. Meðal þeirra eru Leonardo Piccione, starfsmaður Cape hotel og Örlygur Hnefill Örlygsson hótelstjóri. Þeir voru fljótir að sjá tækifæri í athylinni sem bærinn fær út á myndina og hafa nú opnað útibar á pallinum við Cape hotel. Auðvitað fékk barinn nafnið Ja Ja Ding Dog. Vikublaðið hitti þá félaga á pallinum á dögunum en þeir voru í skýjunum yfir viðtökunum eftir fyrstu vikuna.

*Landsmenn flykkjast í útilegur og mikill straumur hefur verið norður. Tryggvi Marinósson forstöðumaður tjaldsvæðanna á Akureyri, segir sumarið hafa farið vel af stað og um 20% aukning sé fyrstu mánuði ársins miðað við árið í fyrra.

*Byggðaráð Norðurþings tók fyrir í síðustu viku bréf frá Húnæðis- og mannvirkjastofnun þar sem tilkynnt er um samþykkt umsóknar Norðurþings um stofnframlag á grundvelli laga um almennar íbúðir. Í bréfinu kemur fram að sveitarfélagið fær samþykkt  27% framlag frá ríkinu að fjárhæð 49.372.740 krónur. Í maí samþykkti sveitarstjórn tillögu skipulags- og framkvæmdaráðs um að úthluta lóð undir fyrirhugaða uppbyggingu íbúðakjarna fyrir fatlaða að Stóragarði 12.

*Í síðustu viku var tekin í notkun ný og glæsileg aðstaða fyrir sjúkraþjálfun Húsavíkur í Hvammi við hátíðlega athöfn. Blaðamaður Vikublaðsins ræddi m.a. við Björgu Björnsdóttur sjúkraþjálfara en hún er ein fjögurra sem reka þjónustuna í verktöku og leigja aðstöðuna af Hvammi.

*Guðmundur Baldvin Guðmundsson formaður bæjarráðs Akureyrar segir að ákvörðun dómsmálaráðherra um að loka fangelsinu á Akureyri vera illa ígrundaða og vill að henni verði snúið við. Bæjarstjórn Akureyrar fundaði með dómsmálaráðherra, fangelsismálastjóra, nýjum lögreglustjóra Norðurlands eystra og bæjarstjóra Akureyrarbæjar í vikunni.

*Símamótið í knattspyrnu fór fram í 33. skipti á félagssvæði Breiðabliks í Smáranum sl. helgi. Knattspyrnufélögin á norðurlandi létu ekki sitt eftir liggja og fjölmenntu á mótið. Geir A. Guðsteinsson sendi Vikublaðinu myndir frá mótinu.

Þetta og meira til í Vikublaðinu.

 

Nýjast