Vikublaðið kemur út í dag

Vikublaðið kemur út í dag og að vanda er farið um víðan völl þar sem finna má áhugverðar fréttir í bland við mannlíf, menningu og íþróttir. Vegna ófærðar um bæinn getur orðið töf á útburði blaðsins.

Meðal efnis:

*Frá og með haustinu 2021 verður 12 mánaða gömlum börnum boðin leikskólavist á Akureyri eða börnum sem eru fædd í ágúst 2020 og eldri. Þetta kom fram í máli Ingibjargar Isaksen formanni fræðsluráðs á bæjarstjórnarfundi í gær þegar fyrri umræður um fjárhagsáætlun næsta árs fór fram og staðfestir hún þetta í samtali við Vikublaðið.

*Húsvíkingurinn Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings brennur fyrir samfélagið sitt. Hann var á sínum yngri árum öflugur í boltanum með Völsungi og minnti um margt á Steve McManaman, kantmann Liverpool og Real Madrid. Kristján átti einnig frækinn leiksigur sem Frankenfurter í uppsetningu Píramusar og Þispu á söngleiknum Rocky Horror Picture Show fyrir „örfáum“ árum. Sagan segir að hann geri sér upp einstaka hógværð þegar hann sýni samstarfsfólki í stjórnsýsluhúsinu á Húsavík myndband af söngleiknum sem finna má á youtube. Blaðamaður Vikublaðsins ræddi við Kristján um manneskjuna á bak við sveitarstjórann.

*Töluverðar breytingar hafa verið í verslunum og veitingastöðum á Glerártorgi á þessu ári og frekari hræringar í farvatninu. Nýtt kaffihús opnar í mars og þá mun pizzustaður opna innan skamms þar sem Subway var áður. Davíð Rúnar Gunnarsson, markaðsstjóri Glerártorgs, segir í samtali við Vikublaðið að það sé ekki óeðlilegt í verslunarmiðstöð að verslanir og veitingahús komi og fari.

*Akureyrarapótek fagnaði 10 ára afmæli nýverið en það var Jónína Freydís Jóhannesdóttir lyfjafræðingur sem stofnaði fyrirtækið árið 2010 ásamt Gauta Einarssyni lyfjafræðingi. Þau endurvöktu í leiðinni rótgróið nafn á apóteki í bænum en nafnið á sérstakan sess í hugum fólks. Vikublaðið spurði Jónínu út í fyrirtækið og hana sjálfa.

*Tamas Kaposi er 29 ára gamall ungverskur blakmaður sem ráðinn var sem þjálfari blakdeildar Völsungs á Húsavík í sumar. Hann hefur mikla reynslu bæði sem leikmaður og þjálfari og hefur orðið ungverskur meistari með sínu félagsliði nokkrum sinnum bæði sem leikmaður og þjálfari og á að baki leiki með ungverska landsliðinu. Hann kemur frá Sümeg í Ungverjalandi sem er þekktur ferðamannabær. Það er stór kastali þar sem er mjög vinsæll hjá ferðamönnum,“ segir Tamas sem er íþróttamaður vikunnar.

*Séra Svavar Alfreð Jónsson skrifar bakþanka vikunnar og kemur inn á Covid-19 í pistlinum.

*Síðastliðið sumar voru óvenju margir námsmenn við sumarstörf á Þekkingarneti Þingeyinga (ÞÞ).  Brugðist var við óvenjulegum aðstæðum háskólanema vegna heimsfaraldursins sem enn geysar. ÞÞ svaraði kalli nemanna og fjölgaði stöðugildum yfir sumarið en 19 háskólanemar störfuðu hjá stofnuninni við tímabundin verkefni í samstarfi við sveitarfélögin á svæðinu og Vinnumálastofnun. Dagný Theodórsdóttir er tveggja barna móðir á Húsavík sem lauk BA-námi í sálfræði við Háskólann á Akureyri í vor. Hún vann eitt þessara verkefna í sumar en er nú komin í masters nám í rannsóknartengdri sálfræði sem hún stundar í fjarnámi við Háskólann á Akureyri. Vikublaðið ræddi við Dagnýju í vikunni.

*Ragna Kristjánsdóttir kennari í Giljaskóla á Akureyri tók áskorun Tryggva Gunnarssonar í síðasta blaði og hefur umsjón með Matarhorninu þessa vikuna.

Hægt er að gerast áskrifandi með því að smella hér.

Nýjast