20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Vikublaðið kemur út í dag
Vikublaðið kemur út í dag og að vanda er farið um víðan völl í blaði vikunnar og áhugaverðar fréttir í bland við mannlíf, menningu og íþróttir.
Meðal efnis í blaðinu:
*Hermann Karlsson, varðstjóri hjá lögreglunni á Akureyri, hefur staðið í ströngu undanfarnar vikur og mánuði ásamt samstarfsfólki sínu í lögreglunni. Fyrir utan almenn lögreglustörf skall þriðja bylgja Covid-19 faraldursins harkalega á hér á svæðinu og hefur lögreglan upplýst fólk á hverjum degi um stöðuna í samfélaginu er varðar smit. Kom heimsfaraldurinn nánast í kjölfar mikils óveðursveturs sem hófst í desember í fyrra. Vikublaðið tók Hermann tali og forvitnaðist inn í líf og starf lögreglumannsins.
*Áhyggjur eru uppi um framtíð áætlunarflugs til og frá Húsavík. Flugfélagið Ernir hefur flogið til Hafnar í Hornafirði, Bíldudals, Gjögurs og Húsavíkur en í sumar voru allar flugleiðirnar boðnar út nema leiðin til Húsavíkur. Norlandair frá Akureyri hefur fengið ríkisstyrktu flugleiðirnar Gjögur/Reykjavík og Bíldudal/Reykjavík en skrifað var undir samninga við Vegagerðina 2. nóvember sl. og hófst áætlunarflug Norlandair til þessara staða á mánudag. Flugfélagið Ernir heldur flugleiðinni til Hafnar. Fjallað er ítarlegu um málið í blaðinu og rætt við fulltrúa Flugfélagsins Ernis og Norlandair.
*Möguleikar á styttingu þjóðvegar milli Akureyrar og Reykjavíkur voru til umræðu á bæjarstjórnarfundi Akureyrar á dögunum. Um er að ræða styttingu sem geti numið allt að 80 km. Gunnar Gíslason bæjarfulltrúi hóf umræðuna og segir í samtali við Vikublaðið að komið hafi verið inn á eina þrjá til fjóra valkosti í þessum umræðum. Stóra hugmyndin er leiðin um Stórasand sem myndi stytta leiðina mest, eða um allt að 80 km.
*Katrín Sigurjónsdóttir sveitastjóri í Dalvíkurbyggð segir mikið hafa gengið á í sveitarfélaginu á árinu sem senn er á enda. Óveður, kórónuveiran og jarðskjálftar hafa gert bæjarbúum lífið leitt. Dalvíkingar lentu illa í þriðju bylgju kórónuveirunnar en um tíma voru um 10% bæjarbúa sóttkví. Dalvíkurbyggð slapp nokkuð vel í fyrstu bylgjunni en í þriðju bylgjunni hafa 25 manns veikst í sveitarfélaginu. Hún segirfólkið í sveitarfélaginu orðið langþreytt á árinu.
*Magni Rúnar Magnússon, framreiðslu- og rafvirkjameistari, og kennar á rafiðnaðarbraut í Verkmenntaskólanum á Akureyri, hefur umsjón með Matarhorninu þessa vikuna og kemur með nokkrar úrvalsuppskriftir.
*Sveinbjörg Smáradóttir skoðaði jákvæðar og neikvæðar hliðar samfélagsmiðla í MA verkefni sínu frá Háskólanum á Akureyri og varði verkefnið í í félagsvísindum við Hug- og félagsvísindasvið í byrjun nóvember. Í MA verkefni Sveinbjargar tóku 25 einstaklingar á Norðurlandi á aldrinum 20-30 ára þátt í rýnihópum sem fóru fram á Facebook eða svöruðu rafrænt opnum spurningalistum um hvaða áhrif samfélagsmiðlar hefðu á lífsgæði þeirra.
* Ólafur Stefánsson, slökkviliðsstjóri á Akureyri, skrifar áhugaverða grein þar sem hann veltir því fyrir sér hvort vernda eigi gömul timburhús í bænum sökum tíðra bruna á árinu á slíkum húsum.
Smelltur hér til að gerast áskrifandi.