„Við vitum allar að þessi tími mánaðarins er ekki sá skemmtilegasti“
Fanndís Dóra Þórisdóttir frá Húsavík lét drauma sína rætast nýverið og stofnaði fyrirtækið Organized. Á fimmtudag í þarsíðustu viku setti hún í sölu svo kölluð Rósubox sem eru flaggskip fyrirtækisins. Rósuboxin eru í áskrift sem hægt er að panta á organized.is en þau innhalda tíðarvörur og ýmsa aðra glaðninga til að létta konum þann tíma sem þær eru á blæðingum. Fanndís segist lengi hafa dreymt um það að stofna sitt eigið fyrirtæki og vera þannig sinn eigin herra. Þar sem ég fæ að stjórna, skapa minn eigin vinnutíma og gera það sem mig langar til að gera,“ segir Fanndis og bætir við að hún hafi lagt höfuðið í bleyti og margar hugmyndir litið dagsins ljós. „Ég fór að hugsa hvað ég gæti gert og hvers konar fyrirtæki ég gæti stofnað. Ég datt einhverra hluta vegna áskriftarbox í hug. Svo fór ég að skoða ýmsa möguleika og datt loks niður á þessa hugmynd. Að hafa tíðabox fyrir konur,“ útskýrir hún.