„Við tókumst á við allt sem hægt er að takast á við í íslenskri náttúru“

Bjarni Páll, Eileen Ström og Almut Trahl riðu alla 1600 kílómetrana.
Bjarni Páll, Eileen Ström og Almut Trahl riðu alla 1600 kílómetrana.

Bjarni Páll Vilhjálmsson rekur ásamt fjölskyldu sinni ferðaþjónustufyrirtæki sem sérhæfir sig í hestaferðum með hópa að Saltvík rétt sunnan Húsavíkur. Á bænum er einnig gistiheimili. Bjarni Páll kom heim fyrir skemmstu úr tveggja mánaða hestaferð þvert yfir landið en á annað hundruð manns tóku þátt í ferðinni. Blaðamaður Vikublaðsins heimsótti Bjarna Pál á dögunum og ræddi við hann um ferðina.

Bjarni Páll segir að kjarninn í starfseminni sé einmitt þessar lengri hestaferðir sem hann hefur verið að bjóða upp á. „Svo erum við með dagstúra líka og gistiheimili,“ bætir hann við.

Brjálað að gera í sumar

Það hefur aldeilis ræst úr sumrinu hjá ferðaþjónustuaðilum á Norðurlandi og Saltvíkurbóndinn er þar engin undantekning. „Það var rólegt alveg fram í seinnipartinn í júní þá fór þetta að taka við sér og það er bara búið að vera brjálað að gera á öllum vígstöðvum. Júlí, ágúst og það sem af er september hafa verið með besta móti,“ segir hann.

1600 km á hestum

Saltvík

Það voru fagnaðarfundir þegar Bjarni Páll reið í hlað í síðustu viku eftir langa útreið. „Við fengum aldeilis frábærar móttökur við heimkomuna í Saltvík þar sem vinir og kunningjar gáfu sér tíma til að fagna örlítið með okkur ferðalokum á þessu tæplega 2 mánaða ferðalagi um fjöll og firnindi, eyðimerkur, dali, strandir, firði og sveitir Íslands,“ segir knapinn knái og bætir við að klárarnir hafi borið merki íslenska hestsins hátt á lofti. „Brokkuðu allir léttir í hlað og létu lítinn bilbug á sér finna í þessari 1600 km löngu ferð.“

Ferðin skiptist upp í sex leggi og lagði fyrsti hópurinn af stað frá Saltvík 15. júlí sl. „Ég reið suður Sprengisand með einn hóp, níu daga ferð og þar tók við annar hópur sem var í sex daga ferð um Suðurland, Þingvelli og yfir í Borgarfjörð. Þriðji hópurinn tók við og fór um Vesturland; Snæfellsnes og Dalina. Fjórði hópurinn fór svo um Vestfirðina en það var lengsti leggurinn, 12 dagar. Síðan tók við fimmti hópurinn og fór í Skagafjörð og Húnavatnssýsluna. Sjötti og síðasti hópurinn tók svo við og reið heim í Saltvík úr Skagafirði,“ útskýrir Bjarni Páll.

Bjarni Páll reið alla leiðina ásamt tveimur konum en fjölmargir tóku tvo til fjóra leggi hver.

„Í heildina voru þetta eitthvað yfir hundrað manns sem tóku þátt í þessari ferð. Svona tuttugu gestir í hverjum legg og starfsmenn sem riðu með sem leiðsögufólk. Þá voru alls staðar einhverjir vinir og kunningjar sem slógust í för með okkur á sínum hestum; riðu með mér og hjálpuðu okkur. Stærsti hópurinn var í Húnavatnssýslunni. Það voru 35 ríðandi og 140 hestar í stóðinu. Ég var með 70 hesta með mér héðan úr Saltvík undir mig og gestina. Það voru alla jafna um 85 hestar með í för á hverjum legg,“ segir Bjarni Páll og bætir við að hans hestar hafi fylgt honum alla ferðina.

Íslenski ofurhesturinn

Saltvík

„Þetta sannar bara hversu gríðarlega öflugur íslenski hesturinn er. Ég hef svo sem alltaf vitað það og verið með þá í þessum löngu erfiðu ferðum og hef aldrei haft áhyggjur af því,“ útskýrir Bjarni Páll en viðurkennir að hafa heyrt einhverjar raddir um það að svona ferðalag væri of erfitt fyrir hestana og eitthvað þyrfti undan að láta.

„Þeir fóru allir með mér af stað 15. júlí og komu allir heim aftur við hesta heilsu. Þeir eru svo bara að mæta í vinnuna aftur í fyrramálið, með hóp í fimm daga túr,“ segir Bjarni Páll.

Hann segir að ferðin hafi verið svakaleg upplifun fyrir alla sem tóku þátt í henni en þetta hafi vissulega reynt á.

„Við erum yfirleitt að ríða 5-8 tíma á dag. Lengsti dagurinn fór upp í 12 tíma. Það voru vissulega nokkrir þungir og erfiðir dagar þar sem við vorum að ríða í svartamyrkri og þurftum að klöngrast yfir alls konar fjöll og firnindi,“ segir Bjarni Páll en veður var skaplegt allan tímann. „Það rétt rigndi á okkur dagpart eina tvo daga þannig að veðrið lék við okkur og var með okkur í liði. Við tókumst á við allt sem hægt er að takast á við í íslenskri náttúru nema veðrið.“

Vantar endurnýjun

Bjarni Páll er búinn að reka ferðaþjónustu í hestamennskunni í tæp 30 ár og er búinn að vara á fullu í hestamennsku frá barnæsku. Hann segist hafa áhyggjur af því að endurnýjun í sportinu sé ekki nægilega mikil. „Það svona eru blikur á lofti í þessu. Þetta er auðvitað að verða mjög mikil keppnisíþrótt en mér finnst ekki vera nógu mikil endurnýjun í þessu fjölskyldusporti, a.m.k. ekki hér á okkar svæði. Það vantar svolítið upp á það en við reynum okkar besta að halda á lofti þessari grein, að ferðast á hestum. Þetta ævintýri var liður í því – að sýna þetta, því ég vissi að þetta myndi vekja mikla athygli,“ segir Bjarni Páll og bætir við að það sé búin að vera mikil aðsókn í lengri hestaferðir. „Það er búin að vera mjög fín aðsókn. Sl. 10 ár höfum við meira og minna verið með fullt í allar okkar ferðir,“ segir Bjarni Páll að lokum

/epe

Nýjast