„Við sögðum já! Presturinn sagði amen og við vorum orðin hjón“
Húsvíkingurinn Snæbjörn Ragnarsson hefur getið sér góðan orðstír sem bassaleikari og textahöfundur í þungarokkshljómsveitinni Skálmöld og meðal annars unnið íslensku tónlistarverðlaunin fyrir textasmíðar sínar. Meðlimir Skálmaldar eru nú farnir að hugsa um framhaldið eftir að hafa tekið sér verðskuldað hlé í eitt ár. Vikublaðið ræddi við Snæbjörn á dögunum um hið stórundarlega ár 2020. „Við lýstum því yfir um mitt ár 2019 að við ætluðum að taka okkur frí allt árið 2020. Við héldum svo lokatónleika í bili í lok þess árs. Við kynntum þetta þannig að við værum að taka okkur hlé þar til við nenntum að gera eitthvað aftur.“ Þá segir Snæbjörn að það hafi verið samhljómur allra meðlima hljómsveitarinnar um að taka a.m.k. allt síðasta ár í frí og taka svo stöðuna í byrjun árs 2021. „Svo kom bara Covid,“ skýtur hann inn í og fer ekki leynt með það að faraldurinn hafi sparað hljómsveitinni æði mikið vesen. „Það þarf nefnilega að skipuleggja allt svona tónleikahald svo langt fram í tímann, hljómsveitir sem við höfum verið að túra með hafa lent í alls konar vandræðum vegna skipulagðra tónleikaferða sem hefur þurft að fresta eða aflýsa vegna faraldursins.“ Snæbjörn segir frá því að honum hafi þótt skondið hvernig fjölmiðlar slógu því upp að Skálmöld væri hætt þegar bandið tilkynnti fríárið og aðdáendur sveitarinnar fylltust skelfingu. „Við gáfum það aldrei út. Við sögðumst bara ætla að taka smá slaka,“ segir hann og bætir við að hljómsveitin sé nú að vakna út dvalanum. „Við vorum búnir að játa okkur á Evróputúr í mars sem nú er búið að fresta fram í nóvember – desember, en það verður svo bara að koma í ljós hvort það gengur upp,“ segir Snæbjörn og lætur ekki óvissuna koma sér út jafnvægi en segir pásuna hafa gert gæfu muninn fyrir mannskapinn. Nú séu allir komnir í stuð til að fara gera eitthvað aftur. Snæbjörn og Baldur bróðir hans eru báðir meðlimir Skálmaldar og spila einnig með Ljótu Hálfvitunum en þaðan kemur hugmyndin um að taka góða pásu og hætta alveg að hugsa um allt sem viðkemur hljómsveitinni. „Þegar Ljótu hálfvitarnir voru búnir að spila alveg gjörsamlega í drep fyrstu 2-3 árin þá vorum við alveg að því komnir að drepa hvorn annan,“ segir Snæbjörn léttur í bragði og bætir við að þá hafi það einmitt verið lagt til að taka góða pásu til að hlaða rafhlöðurnar. „Þá tókum við þessa ákvörðun að vera ekkert að hægja bara á heldur drepa alveg á vélinni og hætta að hugsa um þetta,“ útskýrir hann og bætir við að það hafi verið í þessari pásu að þeir bræður stofnuðu Skálmöld. „Eftir að við tókum pásu í Ljótu Hálfvitunum hefur aldrei verið jafn gaman að spila, og ég held að við séum að fara upplifa það sama í Skálmöld.“ Ljótu hálfvitarnir eru í fullu fjöri og koma meira að segja norður yfir heiðar um páskana og halda tvenna tónleika á Græna Hattinum.