Vetrarfjör hjá Corpo di Strumenti

Tónlistarhópurinn Corpo di Strumenti verður í vetrar-, barokk- og frumflutningsstuði um helgina. Hópurinn heldur TÓLF TÓNA KORTÉRS tónleika á Listasafni Akureyrar laugardaginn 26. febrúar kl. 15 og 16, þar sem Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttir og Brice Sailly frumflytja tónverkið FIMM FYRIRBÆRI Í FEBRÚAR eftir þá fyrrnefndu á tvennum kortérs löngum tónleikum. Þar gefst gott tækifæri til að hlýða á nýja tónlist og/eða tónskúlptúra innan um listaverk og sýningar safnsins. Aðgangur að TÓLF TÓNA KORTÉRINU er ókeypis.

Sunnudaginn 27. febrúar kl. 16 fá þau svo Helenu G. Bjarnadóttur söngkonu og Sóleyju Björk Einarsdóttur trompetleikara til liðs við sig á tónleikum í Hömrum í Menningarhúsinu Hofi. Tónlistarfélag Akureyrar stendur fyrir tónleikunum og verður þar flutt tónlist eftir barokktónskáldin A. Scarlatti, A. Vivaldi og G.B. Pergolesi, en einnig frumflutt ný verk eftir Steinunni. Mjög bjartir tónar í boði innan um sellósónötur: pikkolótrompet og sópran. 

Nýjast