Vaxandi áhyggjur eldri borgara af kjara- og húsnæðismálum
„Það er augljóst að áhyggjur okkar félagsmanna af sínum kjörum fara vaxandi, vissulega er misjafnt á milli manna hver kjörin eru, en það eru allir sammála um að skerðingar Tryggingastofnunar á lífeyrisgreiðslum eru óréttlátar og fyrir því finna allir,“ segir Karl Erlendsson formaður Félags eldri borgara á Akureyri. Félagið hélt á dögunum fund um kjaramál og var mæting einkar góð, um 200 manns mættu til að hlýða á framsögur og taka þátt í umræðum. Stofnaður hefur verið kjarahópur innan félagsins sem vinna á að bættum kjörum eldri borgara á svæðinu en mikilvægt þykir að rödd eyfirskra eldri borgara heyrist í umræðunni um málefni þeirra.
Karl kveðst mjög ánægður með fjölmennan fund og mæting sýni svo ekki verði um villst að æ fleiri hafi áhyggjur af sýnum málum og vilji fylgjast með og láta í sér heyrast. „Félagið hér á Akureyri er mjög öflugt, þátttakan er góð í öllu því sem boðið er upp á, margir taka þátt í bæði tómstunda- og íþróttastarfi. Við höfum heyrt af því að eldra fólk hefur í vaxandi mæli áhyggjur af sínum kjörum og því var ákveðið að efna til þessa fundar. Kjarahópurinn mun í framhaldinu halda þessu máli á lofti,“ segir hann.
Vantar sárlega íbúðir fyrir eldra fólk
Karl nefnir að eldra fólki hafi einnig miklar áhyggjur af stöðu húsnæðismála á Akureyri, en framboð af hentugu húsnæði fyrir þann hóp sé mjög af skornum skammti. „Ég heyri að fólk hefur verulegar áhyggjur af þessari stöðu og um hana er mikil umræða í hópnum,“ segir hann. Nefnir hann að í Hagahverfi þar sem eru nýjar íbúðir búi um 1.200 manns og þar af séu um 200 sem eru 67 ára eða eldri. „Okkar hópur sækir í nýjar íbúðir þar sem t.d. aðgengi er gott og sérþarfir þessa hóps eru í boði. Í þessu hverfi aftur á móti er ekki nein þjónusta í boði, þetta er bara íbúðahverfi og langt að sækja allt, hvort heldur er verslun, tómstundir eða íþróttir.“
Félag eldri borgara hafði í samvinnu við Búfesti hug á að reisa talsvert margar íbúðir við Þursaholt, í nýju Holtahverfi norður, en þau áform hafa verið í uppnámi síðan í sumar vegna lánaskilyrða sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun setti. Þessi nýju lánaviðmið gera að verkum að stór hluti félagsmanna fellur ekki undir þau tekju- og eignamörk sem HMS hefur sett. Unnið hefur verið að lausn málsins en hún er enn ekki í sjónmáli. „Það er bagalegt því þetta var það eina sem var í pípunum í húsnæðismálum fyrir þennan hóp. Áform um þessar íbúðir voru hluti af lausn á húsnæðisvanda eldri borgara,“ segir Karl.