Vaka þjóðlistahátíð hefst á morgun
Á morgun föstudag hefst Þjóðlistahátíðin Vaka. Boðið verður upp á spennandi tónleika, námskeið, samspil og málstofu. Hátíðin fer fram dagana 19. til 21. maí í Þingeyjasýslu og dagana 23. – 27. maí í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri og að lokum þann 28. maí í Norræna húsinu. Nánar má lesa um dagskrána með því að smella hér.
Á Vöku gefst einstakt tækifæri til að kynnast hefðbundinni íslenskri tónlist en þar að auki má sjá og heyra tónlist frá Írlandi, Englandi, Skotlandi, Noregi og Svíþjóð.
Kveðskapur, tvísöngvar, fjörug danslög, þjóðlög - fiðla, langspil, harmonikka, selló, írsk flauta, harpa, írskar sekkjapipur, klarinett og hurdy-gurdy.
Vaka er lítil og vinaleg þjóðlistahátíð sem býður upp á eitthvað fyrir alla. Það eru:
- Síðdegis- og kvöldtónleikar þar sem þú getur til dæmis hlýtt á rammíslenskan kvæðasöng, þjóðlög frá Skotlandi og hefðbundin hljóðfæri í höndum frábærra tónlistarmanna.
- Námskeið að morgni og eftir hádegið fyrir mismunandi aldurshópa og kunnáttustig.
- Málþing sem skoðar þjóðlagatónlist þátttökulandanna frá ýmsum sjónarhornum.
- Óformlegar söng- og samspilsstundir í hádeginu og í lokin á kvöldtónleikum þar sem öllum er velkomið að taka þátt og vera með.