Uppistand og rokkmúsík á Græna hattinum
Þær eru 25 ára, 45 ára, 55 ára og 83 ára og eru með uppistand á Græna hattinum í kvöld, fimmtudagskvöldið 14. mars undir heitinu Bara góðar. Þær María Guðmunds, Kristín María, Hildur Birna, Anna Þóra og Karen Björg eru allar á mismunandi skeiði í lífinu og hafa fjöruna mismikið sopið. „Þær hafa ákveðið að sameina krafta sína og stíga á stokk með stórskemmtilega uppistandssýningu sem skilar úrvals magavöðvum,“ segir í tilkynningu. Skemmtunin hefst kl. 21.00.
Á föstudagskvöldið munu Stebbi Jak söngvari Dimmu og Andri Ívars uppistandari og gítarleikari halda tónleika. Öll bestu lög í heimi verða flutt í tilþrifamiklum akústískum útsetningum. Tónleikarnir hefjast kl. 22.00.
Árið 1998 kom út fyrsta plata þá óþekktrar hljómsveitar að nafni Ensími. Platan fékk heitið Kafbátamúsík og varð fljótlega mjög áberandi í íslensku tónlistarlífi. Lögin Gaur, Arpeggiator og Atari urðu vinsæl á öldum ljósvaka, en það síðastnefnda var valið lag árins á Íslensku tónlistarverðlaununum og hljómsveitin valin „Nýliði ársins“. Kafbátamúsík er talin ein af bestu plötum Íslandssögunnar samkvæmt stórri könnun Ràsar 2.
Kafbátamúsík hefur lifað góðu lífi en verið ófáanleg í geisladiskaformi (cd) í mörg ár en er nú fáanleg á vínylformi á öllum helstu sölustöðum sem selja plötur. Í tilefni af 20 ára útgáfuafmælisins mun Ensími leika Kafbátamúsík í heild sinni á Græna hattinum, laugardagskvöldið 16. mars. Einnig mun sveitin leika vel valin lög af farsælum útgáfuferli sveitarinnar og jafnvel frumflytja ný lög af væntanlegri breiðskífu. Tónleikarnir hefjast kl. 22.00.