Ungir Húsvíkingar kynnast lífríki Skjálfandaflóa með Norðursiglingu
Áralöng hefð er fyrir því að Norðursigling bjóði nemendum á unglingastigi Borgarhólsskóla í haustsiglingu á Skjálfandaflóa. Slík ferð var farin á dögunum þegar um 100 nemendur og kennarar sameinuðust í bátana Bjössa Sör og Náttfara og sigldu um flóann, skoðuðu hnúfubaka og tóku svo land í Flatey.
Að sögn Hjálmars Boga Hafliðasonar, kennara við Borgarhólsskóla, var veðrið með besta móti þegar út í eyju var komið, sunnan andvari og hlýtt. Hópurinn gekk um eyjuna, gæddi sér á nesti í Samkomuhúsinu og naut útsýnisins úr vitanum ásamt því að rekast á eyjaskeggja sem dvalið höfðu í eyjunni frá því í byrjun september.
Eftir vel heppnaða heimsókn út í eyju var stefnan tekin aftur á Húsavík en á heimleiðinni var að sjálfsögðu boðið upp á heitt kakó og kanilsnúða.
„Það er órjúfanlegur hluti af haustinu að bjóða unglingum bæjarins í haustsiglingu og eru starfsmenn Norðursiglingar stoltir að fá nemendur skólans um borð í báta sína og kynna þá fyrir lífríki Skjálfanda og því magnaða umhverfi sem umlykur bæinn,“ segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.
Þetta er ekki fyrsta skipti þetta árið sem ungir Húsvíkingar stíga um borð í báta Norðursiglingar en í sumar fóru um 30 börn úr Sumarfrístund Norðurþings í hvalaskoðun sem heppnaðist afar vel. Að auki unnu félagasamtökin Ocean Missions að verkefni með Vinnuskóla Norðurþings þar sem áhersla var lögð á fræðslu um hafið og lífríki þess ásamt því að vekja börnin til umhugsunar um umhverfismál. „Tvívegis var farið með hópa á rafmagnsskonnortunni Ópal og sýni tekin úr flóanum til að kanna magn plastagna í sjónum. Skemmst er frá því að segja að vel tókst til en Norðursigling er aðalstuðningsaðili Ocean Missions” segir Stefán Jón Sigurgeirsson, framkvæmdastjóri Norðursiglingar.