Umhverfisvænni jól og minni neysla
Nú eru jólin að detta í garð og flestir farnir að undirbúa fyrir hátíðirnar. Sumum finnst jólin vera huggulegur og fallegur tími á meðan aðrir finna fyrir streitu og álagi, enda ákveðin pressa sem getur fylgt jólunum. Jólagjafir er meðal annars eitthvað sem fólk fer að huga að og getur það verið ákveðinn hausverkur.
Umræður um neysluhyggju Íslendinga hefur verið áberandi í samfélaginu seinustu ár en með umhverfisvænu sjónarhorni er ekki svo jákvætt að kaupa hluti sem er algjör óþarfi. Nú eru alls konar afsláttadagar rétt fyrir jólin eins og Black Friday og Singles day, en þetta eru vinsælir dagar sem hafa sérstaklega tíðkast í Bandaríkjunum í mörg ár en eru orðnir vinsælir hér heima líka. Á þessum dögum taka mörg fyrirtæki þátt í að bjóða afslátt á vörunum sínum og salan er yfirleitt mjög mikil, bæði hér heima og erlendis.
Vitundarvakning í umhverfismálum
Sorpa gaf nýverið frá sér þær upplýsingar að fyrirtækið fær 600 tonn af rusli til sín á dag, og minna okkur á í kjölfarið að kaupa engan óþarfa.
Það hefur orðið mikil vitundarvakning varðandi óþarfa neyslu og afleiðingar þess á jörðina okkar. Suma vantar hreinlega ekki neitt og er því óþarfi að gefa þeim enn eina vettlingana eða blómavasa í jólagjöf. Því er gott er að vera meðvitaður um neyslu sína um jólin.
Hugmyndir að jólagjöfum
Hér eru nokkrar hugmyndir að jólagjöfum og ráðum til að gera hátíðirnar örlítið umhverfisvænni:
-
Gefa upplifanir í jólagjöf
Fyrir þá sem eiga allt og vantar ekki neitt er tilvalið að gefa upplifun. Það er ótal margt í boði eins og gjafabréf út að borða, bogfimi, Flyover Iceland, hótel gistingar, dekur, bíó og margt fleira.
2. Gefa gjafakörfu eða gjafa öskju
Hægt er að setja alls konar góðgæti og nýtanlega hluti í körfu eða öskju eins og kaffi, te, súkkulaði, kerti, servíéttu, kex, konfekt, smákökur og fleira. Allt er þetta eitthvað sem hægt að er gæða sér á og nota.
3. Pakka gjöfunum inn með dagblöðum
Pappírinn sem fer utan um gjafirnar fer oftast beinustu leið í svartan ruslapoka eftir að þær eru opnaðar. Að sjálfsögðu eru pakkarnir fallegir að utan skamma stund en þeir eru það líka með dagblöðum og skrauti. Þetta er bæði góð leið til þess að spara smá aur og er betra fyrir umhverfið.
3. Heimagerðar jólagjafir
Hægt að er föndra heima hjá sér og skapa skemmtilega fjölskyldustund í leiðinni. Það er hægt að prjóna eitthvað fallegt, föndra skartgripi eða búa til konfekt.
Uppskrift að konfekti
Hér er að lokum einföld og auðveld uppskrift af mjög góðu konfekti sem tilvalið er að gera með börnum:
- 200 g marsípan (Odense ren rå marcipan)
- 200 g suðusúkkulaði
- Til að skreyta konfektið: Möndlubitar, hægt er að skera möndlur í litla bita eða kaupa þær tilbúnar. Einnig er hægt að hafa þurrkuð trönuber.
Aðferð:
Stillið ofninn á 180 gráður með undir- og yfirhita. Setjið bökunarpappír á bökunarplötu. Takið u.þ.b. teskeið af marsípaninu og gerið kúlu úr því með höndunum. Þegar allt deigið/allar kúlurnar eru komnar á plötuna fer hún inn í ofn í 10 til 15 mínútur. Gott er að fylgjast með þeim síðustu 5 mínúturnar en þær mega verða ljósbrúnar.
Ídýfan:
Á meðan kúlurnar kólna má bræða súkkulaðið í vatnsbaði. Eftir það er best að nota gaffal og skeið til að dýfa hverri kúlu ofan í súkkulaðið þannig það sjáist ekki lengur í marsípanið og setja síðan á disk eða plötu. Á meðan súkkulaðið er ennþá blautt eru möndlunum eða trönuberjunum stráð yfir. Eftir það fer konfektið inn í ísskáp í nokkrar mínútur til þess að súkkulaðið verði hart.
LRÞ