Stúfur snýr aftur í Samkomuhúsið

Stúfur snýr aftur í Samkomuhúsið. Mynd/Auðunn Níelsson
Stúfur snýr aftur í Samkomuhúsið. Mynd/Auðunn Níelsson

Um síðustu jól sýndi Stúfur jólasýningu sína Stúfur við frábærar viðtökur í Samkomuhúsinu  og snýr nú aftur með nýja leiksýningu Stúfur snýr aftur sem frumsýnd verður þann 1. desember. Hann hefur notað tímann vel eftir síðustu jólavertíð og meðal annars æft sig að spila á hljóðfæri, stundað þrotlausa líkamsrækt og smurt raddböndin, segir í tilkynningu frá LA.

„Ég er ljúfur, hrjúfur, spriklandi og sprellfjörugur,"  segir Stúfur og bætir við: „Ég elska leikhúsið því það er svona staður sem barasta allt getur gerst!" Í Stúfur snýr aftur sýnir og sannar jólasveinninn Stúfur enn og aftur að hann er enginn venjulegur jólasveinn. Hann er himinlifandi yfir að hafa verið boðið aftur í Samkomuhúsið og er núna í óða önn að æfa lagið sitt „Jólalagstúfur” og gera tilraunir með að baka hinn fullkomna kanelsnúð, en Stúfur ætlar að gefa öllum sem koma á sýninguna „kanilstúf”.  

„Mér þykir gaman að baka og það finnst mér vera róandi þegar maður er jólaórói en það er líka gott að syngja og ég er búin að semja nýtt lag fyrir sýninguna". 

Stúfur snýr aftur er jólaleg jólasýning fyrir rollinga, gamlingja og allt þar á milli, samt mest fyrir snillinga, segir ennfremur í tilkynningu. Norðurorka er bakhjarl sýningarinnar og gerir Leikfélagi Akureyrar og Stúf kleift að sviðsetja þessa bráðhressandi sýningu. Leikstjórn, meðhöfundar og sérstakir uppalendur eru Margrét Sverrisdóttir og Oddur Bjarni Þorkelsson.

Nýjast