Þrjár sýningar opnaðar á morgun, laugardag
Laugardaginn 3. desember kl. 15 verða þrjár sýningar opnaðar í Listasafninu á Akureyri: Úrval verka úr Listasafni Háskóla Íslands, Stofn, Kristín Jónsdóttir frá Munkaþverá, Vatnið og landið, og samsýningin Solander 250: Bréf frá Íslandi. Ávörp flytja Hlynur Hallsson, safnstjóri Listasafnsins, Kristján Steingrímur Jónsson, safnstjóri Listasafns Háskóla Íslands, og Pär Ahlberger, sendiherra Svíþjóðar á Íslandi. Arctic Opera mun stíga á stokk kl. 15.30 og kl. 16 verður boðið upp á leiðsögn um Solander 250: Bréf frá Íslandi.
Abstrakt verk 20. aldar
Listasafn Háskóla Íslands var stofnað 1980. Líkt og mörg háskólalistasöfn erlendis byggir það safneign sína að hluta til á gjöfum. Stofngjöf hjónanna Ingibjargar Guðmundsdóttur (1911-1994) og Sverris Sigurðssonar (1909-2002) vegur þar þyngst en alls gáfu þau safninu um 1200 verk. Listaverkagjafir þeirra til safnsins eru meðal verðmætustu gjafa sem Háskóla Íslands hafa borist. Einnig hafa ýmsir íslenskir listamenn eða dánarbú þeirra gefið safninu verk sín. Að öllu samanlögðu hafa Listasafni Háskóla Íslands verið gefin hátt í 1300 listaverk. Með innkaupum safnsins hefur verið aukið við listaverkaeignina og á Listasafn Háskóla Íslands nú um 1550 listaverk sem reglulega eru til sýnis í byggingum háskólans.
Stofngjöfin til Listasafns Háskóla Íslands var að stórum hluta fjölmörg abstraktverk frá miðbiki og seinni hluta 20. aldar sem lagði grundvöll að einstöku safni. Á þessari sýningu verða sýnd abstraktverk eftir Þorvald Skúlason, Nínu Tryggvadóttur, Kristján Davíðsson, Karl Kvaran, Guðmundu Andrésdóttur, Valtý Pétursson, Eyborgu Guðmundsdóttur, Hörð Ágústsson og Hjörleif Sigurðsson.
Vatnið og landið
Kristín Jónsdóttir er fædd á Munkaþverá í Eyjafirði 1933. Hún stundaði nám í Handíða- og myndlistaskólanum í Reykjavík 1949-1952, og 1954-1957 var hún nemandi við textíldeild Kunsthåndværkerskolen í Kaupmannahöfn. Kristín stundaði nám í École des Arts Italiennes og Atélier Freundlich í París 1959, og veturinn 1963-1964 var hún á Ítalíu við nám í Università per Stranieri í Perugia.
Kristín hefur haldið yfir 20 einkasýningar á Íslandi, í Bandaríkjunum og Kanada. Einnig hefur hún tekið þátt í fjölda samsýninga bæði hér á landi og erlendis. Verk eftir Kristínu má finna í helstu listasöfnum landsins og einnig í söfnum í Evrópu og Bandaríkjunum. Hún hefur hlotið ýmis verðlaun og viðurkenningar, meðal annars silfurverðlaun Alþjóðlega textílþríæringsins í Lódz í Póllandi 1992. Kristín hlaut heiðursviðurkenningu Myndlistarráðs 2021 fyrir framlag sitt til íslenskrar myndlistar.
Grafísk túlkun
Sýningin Solander 250: Bréf frá Íslandi er sett upp til að minnast þess að 2022 eru 250 ár liðin frá fyrsta erlenda vísindaleiðangrinum til Íslands, 1772. Með í þeirri för var einn af lærisveinum hins heimsþekkta sænska náttúruvísindamanns Carl Linnaeus, sænski náttúrufræðingurinn Daniel Solander. Solander og félagar komu að landi í Hafnarfirði og ferðuðust til Bessastaða, Þingvalla, Geysis, Skálholts og klifu að lokum Heklu, áður en þeir héldu heim á leið. Þeir skrásettu m.a. ýmislegt um náttúru Íslands, menningu, siði og klæðaburð. Tíu íslenskir grafíklistamenn frá Íslenskri grafík túlka á sýningunni þessa atburði og þær breytingar sem hafa átt sér stað á landi og þjóð.
Samtímis verður sýningin Paradise Lost opnuð. Þar sýna 10 listamenn frá Kyrrahafssvæðinu, en Solander var í áhöfn HMS Endeavour í fyrstu ferð Evrópumanna til Ástralíu. Sýningin hefur áður verið sett upp á Nýja-Sjálandi, í Ástralíu og Svíþjóð. Sýningarnar tvær mynda því einstakt samtal Norðurskautsins og Kyrrahafsins í gegnum ferðir Daniel Solanders. Báðar eru þær unnar í samstarfi við sænska sendiráðið.