„Þingeyingur í þaula” fékk Íslensku bókmenntaverðlaunin
Íslensku bókmenntaverðlaunin voru afhent gær á Bessastöðum sem kunnugt er. Í flokki barna- og ungmennabóka hlaut verðlaunin Hildur Knútsdóttir fyrir hina æsispennandi hrollvekju „Vetrarhörkur.” Hildur er ættuð frá Húsavík og úr Kinn. Og sem Þingeyingur sat hún fyrir svörum í dálkinum „Þingeyingur í þaula” í blaðinu Skarpi í lok síðasta árs.
Í tilefni Íslensku bókmenntaverðlaunanna, endurbirtum við hér dálkinn með Hildi Knútsdóttur. JS
Nafn, aldur og heimilisfang:
Hildur Knútsdóttir, 32ja ára, Holtsgata 25, í hinu alræmda póstnúmeri 101 Reykjavík.
Foreldrar:
Guðrún Sigurjónsdóttir og Knútur Árnason.
Heimilishagir:
Ég er gift Agli Þórarinssyni og saman eigum við tvær stelpur; Rán sem er fjögurra ára og Örk sem verður tveggja ára í janúar.
Starf og fyrri störf:
Ég er búin að vera rithöfundur í nokkur ár. Það er samt svo illa borgað að ég er búin að gera ýmislegt meðfram, t.d. hef ég unnið á auglýsingastofu, bókasafni og síðast hjá Náttúruverndarsamtökum Íslands, þar sem ég var verkefnastjóri í loftslagsmálum. Núna er ég líka í kosningabaráttu, sem er jafnvel enn verr borgað en að vera rithöfundur.
Áhugamál:
Ég er mjög löt. Þannig að í frítíma mínum vil ég helst bara lesa bækur, horfa á bíómyndir og tala við vini mína.
Uppáhaldsjurt:
Arabica-kaffiplantan. Án alls vafa.
Fólk sem þú dáir:
Ég veit ekki hvort ég myndi segja að ég dáði neinn. Því öll erum við mennsk og breysk etc. En ég myndi allavega vera virkilega star-struck ef ég hitti J. K. Rowling. Hún er frábær rithöfundur og svo fallega innréttuð líka.
Hvað skortir Þingeyinga helst:
Ég held að Þingeyingar þurfi að fara að horfast í augu við þá bláköldu staðreynd að það eru ekki allir í heiminum sammála um að aðalbláber séu betri en bláber.
Uppáhalds rithöfundar:
Úff, erfið spurning! Þeir eru auðvitað margir. J. K. Rowling, Jane Austen, Isabel Allende, Marian Keyes, Allie Brosh, Elizabeth Bear, Kristín Svava Tómasdóttir, Þórdís Gísladóttir, Guðrún Helgadóttir ... ég gæti haldið áfram.
Íþróttamenn til eftirbreytni:
Ég fylgist vægast sagt afar illa með íþróttum. En allir sem kvengera andstæðinga sína til að niðurlægja þá (sbr. að tala um að einhverjir „sparki eins og stelpa“ eða „grenji einsog smástelpur“) eru dauðir fyrir mér.
Uppáhalds sjónvarpsefni:
Eiginlega allt sem er með geimveruskrímslum. Og stenst Bechdel-prófið.
Hvað tækirðu helst með þér til langdvalar á eyðieyju:
Harry Potter bálkinn. Og hníf.
Frambærilegustu stjórnmálamenn:
Katrín Jakobsdóttir er mín kona.
Bestu snyrtivörurnar:
Ég nota ekki snyrtivörur.
Fyrirmyndarfatahönnuðir:
Þeir sem passa að fötin þeirra séu ekki einnota og ekki framleidd af fátækum þrælabörnum eru til fyrirmyndar.
Draumabíllinn:
Ég er ekki með bílpróf. En rafmagnsbílar eru framtíðin. Eða nútíðin, reyndar.
Uppáhalds matur:
Þessa stundina eru það núðlur með satay-sósu og tófú.
Draumalandið:
Ísland.
Besti staður/staðir á Íslandi:
Sófinn minn.
Hvað áttu ógert:
Alveg ógeðslega mikið! Ég á eftir að skrifa fullt af bókum og svo ætla ég líka að gera það sem ég get til að minnka loftslagsbreytingar af mannavöldum. Og svo ætla ég að koma börnunum mínum á legg.
Mottó:
Það fer eftir aðstæðum hverju sinni. Stundum er það: „Þetta reddast!“ stundum „Að taka einn dag í einu.“ En alltaf samt að vera ekki hrædd við að segja já við nýjum og spennandi tækifærum. Því það er miklu skemmtilegra að hafa prófað og mistekist en að sjá eftir því að hafa ekki stokkið.
Eitthvað að endingu:
Það eru auðvitað krækiberin sem eru best.