„Það eru forréttindi að vera á Íslandi“
Agnes Ýr Guðmundsdóttir er fædd og uppalin á Húsavík. Eftir útskrift í Framhaldsskólanum á Húsavík fór hún beint til Bremen í Þýskalandi í eitt ár, og svo heim til Húsavíkur í eitt ár aftur að vinna (bætti reyndar við sig stærðfræði, tækniteiknun, eðlisfræði samhliða því í FSH). Þaðan fór Agnes til Ítalíu (Rómar) í ítölskunám og vinnu, og svo í Kópavoginn. Hún fór þá í Iðnskólann í Hafnarfirði og tók próf í Iðnhönnun, vann á fasteignasölu og arkítektastofu (ASK). Þaðan lá leiðin til Barcelona þar sem Agnes lærði arkítektúr og vann á arkítektastofu í stórum og spennandi verkefnum með Richard Rogers teyminu frá UK. Þaðan til Los Angeles, bætti við sig meistaranámi í innanhússarkítektúr (MIA), og vann á nokkrum arkítekta og hönnunarstofum meðfram því. Agnes eignaðist 3 stelpur á 5 árum með Jesse, eiginmanni sínum. „Við fluttum niður að ströndinni í Long Beach þar sem við búum enn þá (eða allt dótið okkar býr þar núna í okkar íbúð).“ Fjölskylduhagir? Á 3 dætur, Lóu, Eyju og Völu með manninum mínum Jesse og nú búum við í Gamla Skólanum á Húsavík. Við fluttum heim til Húsavíkur í Ágúst 2020, en það sem ýtti okkur af stað núna sérstaklega var að það stóð þannig á að Jesse gat komist frá vinnu frekar auðveldlega. Ég var ekki byrjuð að vinna úti eftir barn nr.3 og eldri stelpurnar voru búnar að vera heima síðan í mars þegar öllum skólum var lokað. Barn í 1. bekk og Forskóla í fjarkennslu (og lítið systkini sem er svolítið fyrir að trufla) er eitthvað sem bara gengur ekki upp, annað foreldrið vinnandi úti allan daginn mánudaga til laugardags yfirleitt, það var allavega ekki auðvelt fyrir mig. Mér fannst mjög erfitt að sjá til þess að þær kláruðu öll verkefni o.þ.h, þó það væri svo sem ekkert mikil pressa frá skólanum því þetta var mjög í lausu lofti og enginn vissi hvað þetta yrði langt tímabil, allir voru bara að reyna að meika kannski 2 vikur í senn. Við ræddum Íslandsflutning af og til um sumarið en tókum svo bara ákvörðun í byrjun ágúst, og allt gekk upp. Við spurðumst fyrir og leigðum svo fullbúna íbúð með öllu sem þarf (og þar að auki við hliðina á barnaskólanum, í þessu gamla fallega húsi „Gamla Skólanum“) og bíl með bílstólum sem beið okkar á Keflavíkurflugvelli við komuna, hlaðinn af heimasmurðu nesti. Við komum bara með ferðatöskur og öll þau hlýju föt sem við áttum ónotuð frá LA.“