Tekist á við viðkvæm en mikilvæg málefni

Leikfélag Húsavíkur setur upp Ávaxtakörfuna í Samkomuhúsinu. Myndir/epe
Leikfélag Húsavíkur setur upp Ávaxtakörfuna í Samkomuhúsinu. Myndir/epe

Halla Rún Tryggvadóttir tók við formennsku hjá Leikfélagi Húsavíkur (LH) í nóvember á síðasta ári. Halla er þó enginn nýgræðingur þegar kemur að málefnum leikfélagsins enda verið viðloðandi það síðan undir lok 9. áratugar síðustu aldar.

Menningarþorsta Höllu varð enda snemma vart en hún kom einnig að stofnun hins margrómaða leikfélags Framhaldsskólans á Húsavík; Píramus & Þispa.

Halla og skúla

Halla og Hanna Skúla stýrðu fyrsta rennlinu af röggsemi. Myndir/epe

  Kann best við sig baksviðs

„Já ég byrjaði að vinna í kringum leikfélagið þegar ég var unglingur, í kringum ´89-´90. Ég er að verða gömul í hettunni eins og sagt er,“ segir Halla létt í bragði í samtali við Vikublaðið og bætir við að hún hafi aðeins leikið á þessum tíma, þó það sé ekki verulegt.

„Já, já ég hef alveg gert það, ég byrjaði þegar Land míns föður var tekið upp aftur svo hef ég verið eitthvað smáræði á sviðinu,“ segir hún en bætir við að hún kunni þó betur við sig baksviðs.  Þess má geta að þessi síðari uppfærsla LH á Land míns föður var frumsýnd í byrjun árs 1990 og ekki ómerkari maður en Sigurður Hallmarsson sem leikstýrði.

 Langþráð stund að nálgast

Formaðurinn hefur í nógu að snúast um þessar mundir því æfingar standa nú yfir fyrir fyrstu sýningu eftir heimsfaraldur, sem setti aldeilis strik í reikning leikfélagsins.

„Það er óhætt að segja það. Við settum upp Hryllingsbúðina en þurftum að stoppa vegna Covid,“ segir Halla en Litla hryllingsbúðin var frumsýnd í janúar árið 2020, en Covid pestin og samkomutakmarkanir sem henni fylgdu komu í veg fyrir að félaginu tækist að klára sýningar.

„Svo ætluðum við að halda áfram með það eftir Covid og náðum að sýna einhverjar 2-3 sýningar en þá blossaði þetta upp aftur og öllu var lokað,“ útskýrir Halla og bætir við að í kjölfarið hafi staðið til að setja upp Ronju ræningjadóttur en ekkert hafi orðið af því heldur.

Útlitið bjartara

Himmi og VAlli

Nú er útlitið heldur betur bjartara og hófust æfingar LH á einu vinsælasta íslenska barnaleikriti sögunnar, en það er Ávaxtakarfan eftir Kristlaugu Maríu Sigurðardóttur. Tónlistina samdi Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson, sem er tónlistarstjóri í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri.

Verkið ættu allir að kannast við bæði ungir sem aldnir. Það var fyrst sett upp árið 1998 í Íslensku Óperunni með þjóðþekktum einstaklingum. Síðan hefur það verið sett upp á flestum leiksviðum landsins auk þess að hafa verið kvikmyndað.

Ávaxtakarfan fjallar um viðkvæmt efni en í verkinu er tekist á við fordóma, einelti og mismunun á einlægum nótum þar sem börn og foreldrar fá að fylgjast með lífinu í ávaxtakörfunni með leik, söng, sirkus og dansi. Sagan segir frá samskiptum íbúa Ávaxtakörfunnar þar sem gengur á ýmsu til að ná sátt og samlyndum því sumir eru jú ber og aðrir eru grænmeti.

Í ávaxtakörfunni eru allir kúgaðir af Imma ananas. Mæja jarðarber er minnst og verður fórnarlamb eineltis. En þegar gulrót kemur í ávaxtakörfuna tekur hún við hlutverki Mæju sem bitbein og verður fyrir barðinu á fordómum þar sem hún er grænmeti og því annarrar ættar en ávextirnir. Smám saman opnast augu ávaxtanna fyrir því að það er ekki útlitið sem skiptir máli heldur innrætið og allt endar vel að lokum.

Æfingar ganga vonum framar

Sonni og hrund

Æfingar hófust um miðjan janúar og segir Halla að góður gangur sé í undirbúningi sýningarinnar „Þetta gengur alveg óskaplega vel. Það er um 50 manns alls sem taka þátt í uppsetningunni en þó ekki nema 9 sem standa á sviðinu,“ segir Halla og bætir við að fjögurra manna hljómsveit verði á sviðinu.

Það er enginn annar en Valgeir Skagfjörð sem leikstýrir en frumsýning verður 4. mars nk.

„Það er að styttast í þetta og það góður gangur í þessu þannig að það er ekkert stress í hópnum,“ segir Halla að lokum.

Fyrsta rennsli sýningarinnar fór fram á mánudagskvöld og blaðamaður Vikublaðsins var á staðnum og tók meðfylgjandi myndir.

 

 

Nýjast