Talsverð áskorun en lærdómsríkt og skemmtilegt
mth@vikubladid.is
„Það hefur verið mjög mikilvægt fyrir okkur, bæði nemendur og kennara að taka þátt í þessu verkefni og við munum lengi búa að því,“ segja þær Birna Kristín Friðriksdóttir og Nanna Þórhallsdóttir kennarar í Stórutjarnaskóla í Þingeyjarsveit. Skólinn hefur undanfarin þrjú ár tekið þátt í evrópsku samstarfsverkefni fjögurra skóla frá fjórum löndum, Enjoy Math and Sciences nefnist það. Aðrir þátttakendur eru skóli í Arles í Frakklandi, Pärnu í Eistlandi og Mílanó á Ítalíu. Verkefnið er styrkt af Erasmus+menntasjóði ESB.
Birna og Nanna segja stærstu verkefnin felast í heimsóknum milli skóla. Fyrsta veturinn þegar kórónuveiran var í gangi var unnið á netinu. Þrír til fjórir kennarar frá hverjum skóla heimsækja samstarfsskólana, tvo skóla á hverjum vetri og var dvalið í viku í senn á hverjum stað við nám og kennslu. Þá fengu allir að kynnast nýja skólanum auk þess að fá þjálfun í nýjum kennsluaðferðum. Fjórða og síðasta heimsóknin var nú fyrir páska þegar Stórutjarnaskóli fékk heimsókn kennarar frá samstarfsskólunum. Fjórir íslenskir kennarar eru þátttakendur í verkefninu og 11 erlendir. Þá eru um 200 nemendur skólanna á aldrinum 7 til 11 ára virkir þátttakendur á hverju skólaári.
Þessa þrjá vetur hafa verið unnin sameiginleg verkefni á netinu og kennsluaðferðir þróaðar. Verkefnunum hefur verið skilað í sameiginlegar e-bækur og er nú á þessari vorönn verið að ljúka við áttundu rafverkefnabókina. Einnig unnu nemendurnir að sameiginlegum spurningakeppnum, þrautaverkefnum og fleiru sem þau sendu á milli sín.
Meðal verkefna sem búið er að vinna að nefna þær kynningu á menningu hvers lands, það hefur verið búið til og unnið með stærðfræðiverkefni með myndum og upplýsingum frá löndunum, unnið hefur verið með plánetu þar sem hugað er að fólksfjölda, vatns- og fæðuöflun, hitastigi og híbýlamöguleikum. Einnig má nefna verkefni um tungumál, plöntur og dýr og allt er tengt inn í stærðfræði- og náttúrufræðikennslu.
Finna, miðla og þróa
„Megintilgangur þessa samstarfsverkefnis er að finna, miðla og þróa fjölbreyttar kennsluaðferðir og nýja nálgun í stærðfræði og náttúrufræði,“ segja þær. „Það hefur verið einstakt tækifæri fyrir okkur hér í dreifbýlinu að vera með, þátttaka okkar í verkefninu hefur aukið fjölbreytni við kennslu, víkkað sjóndeildarhringinn og þá höfum við kynnst og öðlast reynslu af alþjóðlegu samstarfi.“