Sumartónleikar í Akureyrarkirkju alla sunnudaga í júlí

Akureyrarkirkja. Mynd úr safni.
Akureyrarkirkja. Mynd úr safni.

Sumartónleikar í Akureyrarkirkju hefjast um helgina en þeir fyrstu í röðinni verða á morgun, sunnudaginn 3. júlí. 

Þessi tónleikaröð hefur verið haldin frá árinu 1987 og hefur því fest sig í sessi í menningarlífinu á Akureyri. Viðburðir alla sunnudaga í júlí en tónleikarnir hefjast kl. 17 og er aðgangur ókeypis en  tekið er við frjálsum framlögum. Sumartónleikar í Akureyrarkirkju hlaut styrk frá Tónlistarsjóði, Menningarsjóði Akureyrar og Listasumri.

 Tunglið og ég

Fyrstu tónleikarnir bera nafnið Tunglið og ég og þar koma þau Heiða Árnadóttir söngkona og Gunnar Gunnarsson píanóleikari og flytja lög eftir Tónskáldið Michel Legrand (1932-2019) en hann hefði orðið 90 ára núna í  febrúar. Af  því tilefni ætla þau að flytja lög hans, en Michel er helst þekktur fyrir að hafa samið söngleiki og tónlist fyrir kvikmyndir. Lögin verða flutt á íslensku og eru textarnir samdir af þeim Árna Ísakssyni og Braga Valdimar Skúlasyni.

Blood Harmony

Blood Harmony kemur fram á Sumartónleikum 10. júlí næstkomandi. Systkinin Örn Eldjárn og Ösp Eldjárn hafa bæði starfað í tónlist um langt skeið og höfðu oft rætt um að gera plötu saman, sem varð að veruleika þegar Covid skall á og í kjölfar þess voru þau bæði flutt norður í heimahagana. Þau umbreyttu kjallaranum á æskuheimilinu Tjörn í upptökustúdíó og hófu að taka upp lög sem þau höfðu bæði samið en ekki fundið farveg fyrir, fyrr en nú. Þau fengu systur sína, Björk Eldjárn, til að slást í hópinn og þar með var samhljómurinn fullkomnaður.

Varpaljóð á Hörpu

Helena Guðlaug Bjarnadóttir og Sigrún Magna Þórsteinssdóttir flytja lög úr ljóðaflokknum “Varpaljóð á Hörpu” eftir Ingibjörgu Azimu við ljóð Jakobínu Sigurðardóttur á tónleikum í Akureyrarkirkju sunnudaginn 17.júlí. Sönglögin samdi Ingibjörg í tilefni af 100 ára afmælis ömmu sinnar, Jakobínu Sigurðardóttur. Einnig flytja þær stöllur perlur úr íslenskum söng- og þjóðlögum.

Duo BARAZZ

Síðustu tónleikarnir í röðinni verða 24. Júlí næstkomandi en á þeim leikur Duo BARAZZ sem er skipað  saxófónleikaranum Dorthe Højland frá Danmörku og Láru Bryndísi Eggertsdóttur organisti Grafarvogskirkju. Lára og Dorthe hófu samstarf og samspil í Danmörku og hafa haldið fjölmarga tónleika saman.  Lára hefur meðal annars sérhæft sig í flutningi BARokktónlistar meðan Dorthe er fyrst og fremst jAZZari-og þannig varð til nafnið Duo BARAZZ til.

Nýjast