Sumartónleikar í Akureyrarkirkju 30 ára
Sumartónleikar í Akureyrarkirkju eru orðnir fastur liður í menningarstarfi Norðurlands og fagna í ár 30 ára starfsafmæli. Tónleikar verða haldnir á sunnudögum í júlímánuði og er dagskráin sem fyrr fjölbreytt og glæsileg. Styrktaraðilar tónleikaraðarinnar eru Sóknarnefnd Akureyrarkirkju, Héraðssjóður Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmis, Menningarsjóður Akureyrar og Tónlistarsjóður.
Á fyrstu tónleikunum sem fram fara sunnudaginn 2. júlí kl. 17.00 koma fram Svafa Þórhallsdóttir sópran, Ella Vala Ármannsdóttir horn og Sigrún Magna Þórsteinsdóttir orgel. Þær flytja íslensk sönglög í bland við hátíðlega tóna fyrir horn og orgel.
Ella Vala Ármannsdóttir, hornleikari, er fædd í Svarfaðardal. Hún stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík, Musikhochschule Freiburg im Breisgau, Þýskalandi og í Schola Cantorum Basiliensis í Basel, Sviss. Ella Vala er lausráðin hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands og leikur reglulega m.a. með Hljómsveit íslensku Óperunnar og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. Hún starfar einnig sem málmblásturskennari við Tónlistarskólann á Akureyri og Tónlistarskólann á Tröllaskaga.
Sigrún Magna Þórsteinsdóttir stundaði tónlistarnám í Tónlistarskólanum á Akureyri, Tónlistarskólanum í Reykjavík, við Tónskóla þjóðkirkjunnar og Konunglega danska tónlistarháskólann í Kaupmannahöfn en þaðan lauk hún meistaraprófi í kirkjutónlist. Sigrún hefur starfað sem organisti og kórstjóri í Reykjavík, í Kaupmannahöfn og á Akureyri. Sigrún starfar nú sem organisti við Akureyrarkirkju og við Möðruvallaklausturskirkju. Hún stjórnar einnig Kvennakór Akureyrar og Kammerkórnum Ísold ásamt því að kenna við Tónlistarskólann á Akureyri. Hún hefur haldið fjölda tónleika á Íslandi og erlendis og fékk úthlutað listamannalaunum frá íslenska ríkinu árið 2016.
Svafa Þórhallsdóttir er fædd i Reykjavík. Hún hóf söngnám við Söngskólann í Reykjavík og lagði síðar stund á söng- og söngkennaranám við Konunglega tónlistarháskólann í Kaupmannahöfn. Svafa starfar sem söngvari, tónlistarkennari og kórstjóri í Kaupmannahöfn. Hún tekur virkan þátt í óratóríu uppfærslum sem einsöngvari sem og kórsöngvari og heldur reglulega einsöngstónleika með árherslu á ljóðasöng. Svafa hefur komið fram sem einsöngvari á Tónlistarhátíðum í Færeyjum, Þýskalandi, Póllandi, Noregi, Danmörku og Íslandi.