Stígðu af hringekjunni!

Alfa Björk Kristinsdóttir.
Alfa Björk Kristinsdóttir.

Það var skemmtilegt og fræðandi að hitta þær stöllur Margréti Pálu og Ölfu Björk Kristinsdóttur á leikskólanum Hólmasól hér í bæ, kenndan við Hjallastefnuna. Báðar hafa þær mikla ástríðu fyrir umræðuefninu en það snýr að því að auka gleði fjölskyldunnar og samveru á aðventunni en minnka streitu og stress. Eins og flestum er kunnugt er Magga Pála, eins og hún er kölluð, stofnandi Hjallastefnunnar og vel þekkt fyrir störf sín með börnum og foreldrum, sem kennari, skólastjóri og fyrirlesari. Alfa Björk er leikskólakennari að mennt og hefur verið skólastjóri Hólmasólar frá upphafi, eða frá árinu 2006.

Meira af öllu

Magga Pála veltir fyrir sér desembermánuði. „Hann er dimmasti mánuður ársins með tilheyrandi ófærð og kulda, margir orðnir þreyttir á amstri dagsins og mikið um að vera. Svo bætist við jólaundirbúningur sem oft getur verið meiri kvöð en gleði. Foreldrar og uppalendur hafa hins vegar val! Það er val um hvort streita nái tökum á fjölskyldulífinu eða hvort það sé jafnvel betra að setja sig í annan gír og anda djúpt, bjóða upp á meiri ró­legheit.“

Jólablað Vikudags

Magga bætir við að í gamla daga hafi það þótt fréttnæmt að fá sælgæti og nýjan klæðnað á jólum en bendir svo á að í dag sé þetta í raun og veru aukning á því sem þegar er til staðar, meira sælgæti, meiri föt, meira dót.

Hver fjölskylda með sínar hefðir

Magga Pála kemur aftur að því vali sem foreldrar hafa. „Við þurfum ekki að bæta á það sem þegar er nóg af! Það má hins vegar alltaf bæta á fallegar minningar og gera hluti í desember sem stuðla að frekari samveru fjölskyldunnar.“

Ástríðan fyrir umræðuefninu skín í gegn hjá henni þegar hún bendir á leiðir til að njóta aðventunnar. „Hægt er að hafa það fyrir reglu að fara alltaf á róló með kakó á sunnudögum eða í sund, eða gera eitthvað saman sem tengist jólunum eins og að föndra, syngja og tralla. Ég þekki til dæmis eina fjölskyldu sem er alltaf á náttfötunum á jólunum!“

Magga Pála segir að hver fjölskylda þurfi að finna sinn takt þar, „en hafið í huga að forðast streituaðstæð­ur, eins og búðarferð í verslunarmið­stöð, slökkvið aðeins á jólaauglýsingum í útvarpi og sjónvarpi og njótið þess frekar að gera aðventuna eftirminnilegan tíma þar sem fjölskyldan sameinast við að skapa venjur sem geta lifað áfram í fjölskyldum barna ykkar.“

Umfram allt segir Magga Pála mikilvægt að börnin taki jafnan þátt í að skapa þessar venjur og því sé gaman að spyrja þau hvað þeim finnist gaman að gera á aðventunni.

„Það er frekar ólíklegt að verslunarleiðangrar og alþrif séu á óskalistanum,“ segir hún og hlær innilega.

Ákvörðun sem fjölskyldan tekur

Alfa segir að þetta gerist ekki af sjálfu sér. „Þetta er ákvörðun sem fjölskyldan þarf meðvitað að taka í sameiningu, ákvörðun sem snýst um að gera aðventuna einfaldari og skemmtilegri.“

Magga Pála bætir við: „Taktu út hluti sem valda streitu og settu inn eitthvað í staðinn sem er streituminnkandi. Slepptu því að elda allan daginn á aðfangadag og farið frekar fjölskyldan í langan göngutúr, farið í að hreyfa mannskapinn og verja tíma saman.“

Kennum börnunum að setja orð á athafnir og hluti

Alfa bendir á að í því samhengi sé mikilvægt að kenna börnunum að setja orð á athafnir og hluti, því samanburðarmenning barna sé svo sterk: „Í okkar fjölskyldu kaupum við piparkökur og málum fyrir jólin,“ eða „við förum alltaf út að renna á aðfangadag.“ Þar með læra börnin að segja frá hefðunum í sinni fjölskyldu, eitthvað sem er öðruvísi hjá þeim en öðrum, sem er eðlilegt og skemmtilegt!“

Magga Pála segir svo skellihlæjandi: „Í okkar fjölskyldu horfum við sem dæmi alltaf á sömu jólamyndina saman og hlæjum alltaf jafn mikið. Þetta er hefð sem mun seint hætta.“

Jólasveinarnir þurfa stundum aðstoð!

Magga Pála vildi í lokin koma smá skilaboðum til jólasveinanna. „Þeir eiga það til að ruglast! Foreldrar geta hjálpað þeim að finna gjafir sem gleðja börnin, tannbursta, spil, eitthvað nýtilegt sem þarf alls ekki að kosta of mikið! Sniðugt fyrir þessa sveina að gefa börnunum hluta af þeim fatnaði sem börnin klæðast svo á jólunum, eins og sokka, nærföt, slaufu í hárið og fleira í þeim dúr.“

Guðrún Kristín Blöndal

Greinin birtist fyrst í Jólablaði Vikudags sem var í umsjón nemenda í prentmiðlun við Háskólann á Akureyri.

Nýjast