Sterkir menn og gamlir tíkallar - Spurningaþraut #12

Spurningaþraut Vikublaðsins #12

  1. Hvað heitir blómið á myndinni hér fyrir ofan?
  2. Að horfa á kvikmynd er góð skemmtun. Margar bíómyndir í fullri lengd hafa verið framleiddar á Íslandi en ein sú fyrsta heitir Morðsaga og var frumsýnd 12. mars 1977. Hver leikstýrði og skrifaði handritið?
  3. Fyrsta íslenska kvikmyndin í fullri lengd kom reyndar út árið 1949 en hún var einnig fyrsta talmyndin hér á landi. Hvað hét myndin. Sérstakt bíónördastig fæst fyrir að vera með leikstjóra myndarinnar líka.
  4. Árið 1981 varð gjaldmiðilsbreyting á Íslandi og nýir peningaseðlar voru gefnir út. Þetta voru 10, 50, 100 og 500 krónu seðlar. Af þeim er nú aðeins 500 krónu seðillinn enn í gildi. En hvaða karl sem er löngu látinn prýddi framhlið 10 króna seðilsins?
  5. Ostaskeri er þarfaþing á hverju heimili. Hverrar þjóðar var maðurinn sem fékk fyrst einkaleyfi á honum? Sérstakt brúnostastig fæst fyrir að vera með nafnið á uppfinningamanninum.
  6. Við skulum halda okkur við ostinn. Flestir íslenskir ostameistarar hafa lært iðn sína í Danmörku en Danir eru einmitt frægir fyrir Havartann sinn. En frá hvaða landi kemur Cheddar osturinn?
  7. Margir útlendingar telja að íslenskar konur séu fallegastar allra og er eflaust eitthvað til í því. Einnig telja margir útlendingar að íslenskir karlmenn séu öðrum körlum sterkari. Ég veit nú ekki með það en það hefur eflaust eitthvað að gera með Jón Pál Sigmarsson og Magnús Ver Magnússon að gera. Hversu oft sigraði Jón Páll keppnina Sterkasti maður heims?
  8. En Magnús Ver?
  9. Hálsinn mjór og maginn stór/ hendur hendur/ fætur fætur/ hár hár hár/ er ekki hann *** sætur. Um hvern er ort?
  10. Vera Illugadóttir stýrir einum vinsælasta útvarpsþætti á Íslandi sem margir hlusta reyndar á sem hlaðvarp. Hvað heitir þátturinn?

---

Svör:

  1. Baldursbrá.
  2. Reynir Oddson.
  3. Myndin heitir Milli fjalls og fjöru. Bíónördastigið fæst fyrir að nefna Loft Guðmundsson sem var mikill frumkvöðull í kvikmyndagerð á Íslandi.
  4. Arngrímur Jónsson lærði (1568-1648).
  5. Uppfinningamaðurinn var frá Noregi og hét Thor Bjørklund.
  6. Englandi.
  7. Fjórum sinnum.
  8. Einnig fjórum sinnum.
  9. Þetta er hann Ólin Prik.
  10.  Í ljósi sögunnar.

Hér má finna spurningaþraut #11

Hér má finna spurningaþraut #13

Nýjast