Sólin um jólin

Tenerife er þægilegur kostur fyrir Íslendinga um jólin.
Tenerife er þægilegur kostur fyrir Íslendinga um jólin.

Undanfarin ár hefur það orðið sífellt vinsælla að fólk ferðist til útlanda um jólin. Virðist vera sem margir séu sólarþyrstir og eru staðir á borð við Tenerife mjög vinsælir áfangastaðir. Fjölmiðlamaðurinn Sigvaldi Kaldalóns, eða Svali eins og hann er oftast kallaður, rekur ferðaskrifstofu á Tenerife og segir hann að um 4.000 miðar séu seldir til Tenerife um jólin frá Íslandi.

Svali flutti til Tenerife með fjölskyldu sinni í desember 2017. Hann segist hafa verið orðinn leiður á fjölmiðlum eftir 26 ára feril í þeim og því hafi hann langað að prófa eitthvað nýtt. Hann ákvað því að flytja til Tenerife og stofna þar lítið ferðaþjónustufyrirtæki. Hann segir að á Tenerife sé æðislegt að búa.

Tenerife þægilegur kostur um jólin

Fyrirtækið sem Svali rekur heitir Tenerife-ferðir og tekur ferðaskrifstofan á móti 40 manns um jólin. Enn fleiri fara þó í ferðir á eyjunni sem fyrirtækið býður upp á fyrir Íslendinga. Boðið er upp á níu ferðir í hverri viku og er alltaf nóg að gera.

„Við erum með skoðunarferðir og gönguferðir og matar- og vínupplifanir og alls konar. Þar er alveg allt yfirfullt um jólin. Ég held að það sé búið að selja 4.000 miða til Tenerife um jólin,” segir Svali. Aðspurður hvað Svali telur ástæðuna fyrir þessari miklu sölu vera til Tenerife segir hann að Íslendingar séu hjarðdýr sem elti hina. Hann segir einnig að það séu margir búnir að prófa að fara út um jólin og að langflestir sem hann hitti segist 100 prósent ætla að gera það aftur.

„Það eru rosa margir sem hafa sagt mér að í staðinn fyrir að halda jólin heima þá bara fer öll fjölskyldan út, það er ekkert pakkavesen, nema kannski litlu börnin fá einn pakka, og þau fara bara út og fara út að borða á aðfangadag, njóta þess að vera saman og fara í sólbað. Þetta er bara önnur upplifun,” segir Svali.

Hann minnist einnig á að það sé þægilegt að vera á Tenerife, margir Íslendingar fari þangað og að fólki finnist það oft vera heima hjá sér. Beint flug er til Tenerife og enginn tímamismunur sem gerir það enn þægilegra.
Aðspurður hvernig veðrið er á Tenerife um jólin segir Svali að öll jólin sem hann hefur verið þar hafi veðrið verið gott. Meðalhitinn í desember sé 22-24 gráður á daginn og mjög sjaldan vont veður. Kaldara getur verið á kvöldin en ekkert sem fólk finnur áberandi fyrir.

Litlar takmarkanir og sóttvarnir til fyrirmyndar

Eins og staðan er núna eru ekki miklar takmarkanir á Tenerife vegna Covid-19. Allar eyjurnar eru „grænar“ en að sjálfsögðu er ómögulegt að segja til um hvort það breytist. „Eina sem þú þarft er að hafa grímuna á þér þegar þú ferð út í búð eða út að borða og eitthvað svona. Þú mátt vera grímulaus úti að labba og allt það,” tekur Svali fram.

Hann segist eiginlega ekki finna neitt fyrir takmörkunum og að sóttvarnaaðgerðir séu til fyrirmyndar. „Þeir eru duglegir. Þeir viðhalda grímuskyldunni og þeir eru með spritt og þeir þrífa allt mjög vel og maður sér það alveg á öllum veitingastöðum og allt svona. Það er allt alveg sótthreinsað eftir hvern gest,” segir Svali um Tenerife-búa.

Mikil jólastemning á Tenerife um jólin

 

Svali

 

Tenerife er þægilegur kostur fyrir Íslendinga um jólin.

 

Aðspurður af hverju fólk ætti að velja Tenerife um jólin segir Svali að það sé auðvelt að ferðast þangað og þægilegt að vera þar. Hann segir að það sé mikil jólastemning, allt sé skreytt hátt og lágt og að Tenerife-búar séu algjörar jólakúlur. Þeir stilli öllu upp fyrir hefðbundin jól þó svo að þeirra jól séu öðruvísi.

„Þeirra pakkadagur er 6. janúar. Þetta eru vitringarnir þrír. Það eru þeirra jólasveinar. Aðfangadagur er bara venjulegur dagur. Rauðir dagar eru jóladagur og nýársdagur en að öðru leyti er ekkert annað,” nefnir Svali.

Að lokum segir hann að allir sem koma til Tenerife um jólin detti í mjög mikið jólaskap.

                                                                                                                                                    EHJ

 

Nýjast