20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Snjólatónleikar í Akureyrarkirkju
Eyþór Ingi Jónsson, Elvý G. Hreinsdóttir og Birkir Blær Óðinsson skipa Fjölskyldutríóið sem heldur jólatónelika í Akureyrarkirkju laugardaginn 16. desember kl. 20:00. „Fjölskyldutríóið hefur ferðast um Norðausturland undanfarið og haldið tónleika á Kópaskeri, Akureyri, Ólafsfirði og Dalvík. Í janúar höldum við áfram tónleikahaldi, þar sem við flytjum litríka og fjölbreytta tónlist.
En á milli tónleikaraðanna ákváðum við að halda eina jólatónleika, þó ekki venjulega jólatónleika með klassísku jólalögunum, heldur verðum við meira með hlýlega vetrartónleika, ef hægt er að segja svo. Tónleikana köllum við Snjólatónleika. Við fengum frábært listafólk til að vera með okkur á tónleikunum og verður efnisskráin hugljúf, þjóðleg, notaleg og falleg. Við ætlum okkur að slökkva á raflýsingu Akureyrarkirkju, kveikja á nokkrum notalegum kösturum og kertum og skapa þægilegt og afslappandi andrúmsloft,“ segir í tilkynningu en frítt verður á tónleikana.
Elvý sér um söng ásamt Birki Blæ sem einnig spilar á gítar og Eyþór Ingi spilar á allskyns hljómborðshljóðfæri. Gestirnir á tónleikunum eru Fanney Kristjáns Snjólaugardóttir, söngkona, Arnbjörg Sigurðardóttir, flautuleikari, Konni Bartsch, söngvari og gítarleikari og félagar úr kammerkórnum Hymnodiu.
Dæmi úr efnisskrá: Skandinavísk jólatónlist, lög eftir Konna og Birki Blæ, íslensk og erlend þjóðlög, íslensk sönglög og silkimjúkt vetrarpopp. Lagatextar eru m.a. eftir Hannes Sigurðsson, Hildi Eir Bolladóttur, Svavar A. Jónsson og Gísla á Uppsölum