20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Skjálfandi Listahátíð snýr aftur
Listahátíðin Skjálfandi verður haldin í 10. sinn föstudaginn 19. maí nk. í Samkomuhúsinu á Húsavík. Það er óhætt að fullyrða að mörg hafi beðið með óþreygju eftir þessum fréttum en covid faraldurinn hafði þau áhrif að hátíðinni var aflýst tvö síðustu ár.
Það er Harpa Fönn Sigurjónsdóttir, stundum kennd við Kaldbak á Húsavík sem hefur haldið utan um hátíðina öll þessi ár með fórnfýsi og dugnaði. Nú er komið að 10 ára afmælishátíð Skjálfanda.
Hátíðin í ár verður tileinkuð listakonunni Huldu og undurfallega Skjálfandaflóa. Una Stef mun loka hátíðinni með nýju samstarfsverkefni sínu sem ber heitið Huldumál – Ný íslensk sönglög við ljóð Huldu.
Aðstandendur hátíðarinnar leita nú að listafólki til að taka þátt, hvort sem um ræðir tónlist, myndlist, leiklist, ljóðlist, ritlist, gjörningalist, uppistand, sjálfslist eð ahverskonar annarra skapandi uppákoma. Áætlað er að hvert atriði taki 5-20 mínútur í flutningi, en getur jafnframt verið viðvarandi á meðan hátíðinni stendur.
Það er ánægjulegt að Skjálfandi listahátíð sé að vakna úr dvalanum enda sett sterkan svip á bæjarlífið í hvert sinn sem hún hefur verið haldin.