20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Skíðað á Húsavík í júlí
Gönguskíðafólk á Húsavík hefur um nokkurra ára skeið stundað íþrótt sína af miklum móð við Reiðarárhnjúk á Reykjaheiði en svæðið hefur að mestu verið byggt upp af áhugafólki. Þá var skíðalyftan úr Skálamel loks flutt og komið fyrir í Reiðarárhnjúk síðast liðið haust en sá gjörningur hefur lengi verið í burðarliðnum enda gengið brösulega að halda skíðasvæði bæjarins í Skálamel opnu sökum snjóleysis undanfarna vetur.
Einhvern tíma var haft eftir Vilhjálmi Pálssyni sem lengi hefur barist fyrir því að fá skíðalyftu í hnjúkinn að hann ætti sér þann draum að Húsvíkingar gætu stundað skíði fram í júlí. Sá draumur rættist heldur betur um helgina þegar Böðvar Bjarnason og Íris Víglundsdóttir fengu son sinn og tengdadóttur, Símon Böðvarsson og Tönju Rut Bjarnadóttur í heimsókn en þau eru búsett í Sviss.
Þau komu vel útbúin frá Sviss og skelltu sér á fjallaskíði, reyndar í Gyðuhnjúk sem er á sama svæði og virðast hafa notið sín í snjónum og veðurblíðunni eins og meðfylgjandi myndir sem Böðvar tók sýna glögglega. Þau létu það heldur ekki á sig fá þó skíðalyftan hafi verið lokuð.
/epe