Flytja tónlistina úr Joker í Hofi og Hörpu

Tónlistabíósýning kvikmyndarinnar Joker verður flutt í Hofi.
Tónlistabíósýning kvikmyndarinnar Joker verður flutt í Hofi.

Margverðlaunuð kvikmyndatónlist Hildar Guðnadóttur úr kvikmyndinni Joker verður flutt af SinfoniaNord í Eldborg þann 31. maí og í Hofi 13. júní. Hildur hlaut bæði Óskars-og BAFTA-verðlaunin fyrir tónlistina í myndinni. Verður tónlistin flutt á tónleikabíósýningu af Kvikmyndahljómsveit Íslands; SinfoniaNord. Stjórnandi verður faðir höfundarins, Guðni Franzson.

Joker fékk tvenn Óskarsverðlaun og þrenn BAFTA verðlaun á þessu ári. Þar á meðal hlutu Hildur Guðnadóttir, fyrir bestu kvikmyndatónlistina og Joaquin Phoenix fyrir bestan leik í aðalhlutverki, verðlaun á báðum þessum verðlaunahátíðum. Bæði hrepptu þau einnig Golden Globe og Critics’ Choice verðlaun fyrir framlag sitt til kvikmyndarinnar.

Í tilkynningu frá Menningarfélagi Akureyrar segir að tónlist Hildar Guðnadóttur sé þungamiðjan í tilfinningaþrunginni vegferð aðalpersónunnar Arthur Fleck í kvikmyndinni JOKER. Kvikmyndinni verður varpað á risastórt tjald í Eldborg og Hofi með tali og áhrifahljóðum um leið og stór sinfóníuhljómsveit SinfoniaNord leikur magnþrungna tónlist Hildar.

„Það er mér mikið ánægjuefni að fá að sjá og heyra Joker á kvikmyndasýningu með lifandi sinfóníuhljómsveit,“ er haft eftir Hildi Guðnadóttur. „Hljómsveitin kom með svo mikla dýpt og næmni í flutningi sínum þegar við hljóðrituðum tónlistina. Við bókstaflega héldum í okkur andanum meðan á upptökum stóð. Þetta var svo fallegt ferðalag og það gleður mig mjög að áhorfendur fái nú að njóta þess á sama hátt.”

Miðasala hefst á tix.is, þriðjudaginn 10. mars kl. 12 og er 16 ára aldurstakmark.

 

Nýjast