Sigurður Illugason er listamaður Norðurþings 2021

Sigurður Illigason er listamaður Norðurþings 2021. Mynd/Norðurþing
Sigurður Illigason er listamaður Norðurþings 2021. Mynd/Norðurþing

Listamaður Norðurþings 2021 er Sigurður Helgi Illugason, leikari og tónlistarmaður. Sigurður, eða Siggi Illuga eins og hann er best þekktur, ólst upp í Reykjadal til 16 ára aldurs. Þá flutti hann til Akureyrar til að læra málaraiðn og kynntist þar konu sinni Guðrúnu Sigríði Gunnarsdóttur. Sigurður flutti til Húsavíkur árið 1981 til að spila fótbolta með Völsungi og hefur verið áberandi í samfélaginu síðan. Tónlist og leiklist hafa verið viðloðandi allt hans líf en hann byrjaði að spila á dansleikjum með föður sínu 14 ára gamall. Hann söng um tíma með karlakórnum Hreim og hefur verið í mörgum hljómsveitum, meðal annars Túpílökum sem hafa gefið út tvær plötur. Frá þessu er greint á vef Norðurþings.

Árið 1990 lenti Sigurður, að eigin sögn, óvart í því að taka þátt í uppfærslu Leikfélags Húsavíkur á Land míns föður og þar hefur hann verið síðan; í raun eru ekki mörg verk sem LH hefur sett upp og hann ekki komið nálægt á einn eða annan hátt. 

Sigurður er mikill skemmtikraftur og alltaf til í að taka þátt í verkefnum sem gleðja fólk. Það er ekki sjaldgæf sjón að sjá hann troða upp með gítarinn á ýmsum viðburðum þar sem gestir fá að njóta tónlistar- og leiklistarhæfileika hans. Hann var sérstaklega mikið í sviðsljósinu á þessu ári sem Óskar Óskarsson í Óskarsherferð Húsvíkinga og má með sanni segja að hann eigi sinn þátt í okkar velgengni þar.

Í tilnefningunni sem barst um Sigurð segir: „Ég vil tilnefna listamann Norðurþings 2021, þó fyrr hefði verið, því hann er búinn að spila og koma fram í ansi mörg ár án endurgjalds. Honum finnst þetta sjálfsagt. Það er Sigurður Illugason, málarameistari og stórleikari okkar Húsvíkinga“. 

 

Nýjast