20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Samverustundir fjölskyldunnar
Guðrún Ösp Sævarsdóttir er fjörtíu og sjö ára Akureyringur í húð og hár. Hún starfar sem matráður og hómópati.
Guðrún er mikið jólabarn og finnst henni það aukast eftir því sem hún eldist og henni finnst alltaf auðvelt að opna sig fyrir anda jólanna. Jólin á hennar heimili eru aldrei eins, þau hjónin hafa aldrei verið ein á jólunum og henni finnst tilhugsunin að vera ein á jólunum ekki góð.
Jólin eru mjög misjöfn frá ári til árs. „Stundum eru jólin róleg og allir koma saman við eitt borð en svo kemur líka fyrir að gestirnir eru svo margir að það er borðað við mörg borð. Hvoru tveggja þykir mér þetta yndislegur tími og samverustundin með fjölskyldunni sömuleiðis. Þar sem ég fæ marga næturgesti yfir há tíðirnar þá er lítið um að ég fari í matarboð og ég er meira í því að halda boð sjálf.“
Gamla fólkið á það til að gleymast
Guðrún hefur nóg fyrir stafni og gleðst að vera heima yfir hátíðirnar. Foreldrar hennar og systkini eru flutt suður en áður fyrr var mikið meira um matarboð.
Guðrún segir að tengdapabbi hennar bjóði fjölskyldunni í kaffi annan í jólum og „það er krúttlegasta kaffiboð í heimi.“ Hún telur sig ekki vera vanafasta en maðurinn hennar og börnin eru dugleg að pikka í hana og benda henni á hvernig þetta hefur verið og því verður ekki breytt!
„Á aðfangadag fer maðurinn minn ásamt börnum og tengdapabba á rúntinn um hádegið og heimsækir gamla fólkið.“ Guðrún segir að gamla fólkið eigi það til að gleymast og finnst mikilvægt að heimsækja það, þá sérstaklega yfir jólin.
„Þessi hefð var upphaflega þegar börnin mín voru lítil og kraftmikil. Þá fékk ég smá næði til að klára lokasprettinn, svo sem að pensla kalkúninn, leggja á borð og kúpla mig niður úr jólastressinu – og hlusta á óperu á meðan. Þá var ég tilbúin að taka á móti þeim fyrir gleði kvöldsins.“ En þessi hefð hefur haldist og Guðrúnu þykir það yndislegt.
Á Þorláksmessu eða jóladag fer fjölskyldan í kirkjugarðinn en hún hefur ekki lagt í það að fara á að fangadag, þegar flestir Íslendingar fara í garðinn og nær allir á sama tíma.
Engin jól án kaniltertu
Mikið var bakað á heimili Guðrúnar á árum áður en hún er nú hætt að reyna að eltast við að baka tólf sortir eins og mamma hennar gerði hér áður fyrr. Alltaf eru bakaðar jólakleinur og undanfarin ár hafa hún og vinkonur hennar komið saman ásamt dætrum sínum og gert kleinur og sörur.
„Það eru heldur engin jól án þess að það sé til kanilterta. Það besta við jólin er samverustundin með fjölskyldunni. Það er ómisandi og yndislegt að setjast niður með þeim sem manni þykir vænt um, þar sem síðustu dagana fyrir jól eru nú yfirleitt allir á hlaupum.“
Jólamaturinn er yfirleitt það sem stendur upp úr yfir hátíðirnar og er Guðrún með ferskan kalkún úr Reykjabúinu í Mosfellsbæ. Kalkúnn hefur verið á boðstólum í tuttugu og þrjú ár hjá Guðrúnu og fjölskyldu og mun seint breytast.
„Oft er mikið bras og vesen að koma honum norður á Þorláksmessu en það hefur blessast hingað til. Eitt skiptið munaði litlu að kalkúninn kæmist ekki fyrir jól vegna veðurs en það reddaðist með því að hann fékk að sitja í fanginu á litla frænda mínum í flugi á aðfangadagmorgun. Við hefðum hugsanlega þurft að fresta jólunum ef ekki hefði verið flogið!“
Á jóladag er hangikjöt á beini og þá eru þau helst með lífrænt ræktað kjöt frá Brekkulæk í Miðfirði. „Maður verður að hafa svolítið fyrir því að elta bráðina þegar maður veiðir hana ekki sjálfur.“
Í eftirrétt er svo borinn fram heimagerður ís í ýmsum útfærslum. En eftirrétturinn er borðaður í „hálfleik“ í pakkaopnun, „vegna þess að hún dregst yfirleitt fram yfir miðnætti.“
Guðrún ólst sjálf upp við möndlugraut á jólunum en hefur ekki tekið upp á þeirri hefð sjálf en mandlan er falin í ísnum á aðfangadagskvöld.
Jólaskreytingarnar á alla vegu
„Húsið er mikið skreytt fyrir jólin og jólakössunum fjölgar óþarflega hratt á hverju ári. Jólaseríurnar eru að mestu glærar en venjulega fær eiginmaðurinn að dunda sér við seríurnar á jólatrénu og það er ótrúlegt hvað eitt tré getur borið margar seríur!
Þar er blanda af marglitum kertaseríum og guð má vita hvað fleira. Það er erfitt að horfa á þetta fyrst en það venst. Svo lengi sem ég næ að halda aftur af eiginmanninum hvað varðar englahárin er þetta í lagi!“
Jólatréð er úr Hálsaskógi og það er sótt fyrir hver jól. Guðrún segir Hálsaskóg vera dásamlegan skóg þar sem hlýlega sé tekið á móti manni og gefst fólki tækifæri til að velja og saga tréð sitt sjálft. „Við brennum okkur á þessu á hverju ári, því að tréð virðist alltaf minna í skóginum en þegar heim er komið, en sem betur fer er lofhæðin mikil í húsinu.“
Hún segir ekkert jólalag vera í sérstöku uppáhaldi. „Ég er algjör alæta þegar kemur að tónlist en fyrir þessi jól er ég mikið búin að vera hlusta á Hátíð eftir Hildi Örvars, sem mér þykir yndislegur diskur sem heldur manni á jörðinni og nærir sálina. Guðrún ætlar að reyna að þræða tónleika eins og hún getur vegna þess að hún elskar að fara á tónleika.
„Það er margt sem fær mig til að komast í jólaskapið, til dæmis laufabrauðagerð á sambýlinu hjá Magga frænda og það að setja upp jólaljósin hjá tengdapabba. Svo auðvitað þegar maðurinn minn setur Frostrósardiskana á, þá er allt að smella saman. Svo eru ekki jól nema að þau séu hvít.“
Eftir að jólasveinninn hætti að koma til barnanna og gefa í skóinn, hefur skapast sú hefð að á hverjum sunnudegi á aðventunni er fjölskyldustund þar sem börnin fá litla aðventugjöf og kveikt er á aðventukertinu.
Frá hjartanu, ekki framleiðanda
Bestu jólagjafirnar sem Guðrún hefur fengið eru margar, en það sem henni finnst skipta mestu máli og þykir alltaf vænst um er þegar gjafirnar eru valdar með hjartanu en ekki framleiðanda eða verðmiðanum. Á heimili hennar er gerður óskalisti og hefur listi Guðrúnar ekkert breyst. „Ég bið um þæg og góð börn og ætla að halda mig við það út lífið.“
Fyrsta minning hennar af jólum er „hjá ömmu Rúnu og afa Sæma í Þelamerkurskóla. Þar var fjölskyldan öll jól fram á unglingsárin. Þá söfnuðust saman öll börnin sem bjuggu í skólanum og horfðu á teiknimyndir. Ég man að öll börnin sátu og biðu eftir að sjónvarpið myndi hitna, það var svaka stemning. Mig minnir að þetta hafi verið sömu jól og þegar ég fór í fýlu því ég mátti ekki opna saumadótið sem ég hafði fengið í jólagjöf. Þá var nefnilega sú hefð að það mætti ekki gera handavinnu á jóladag.“
Með ömmu sinni fór hún oft í miðnæturmessu á Möðruvöllum. „Það var alveg yndisleg stund sem lifir enn í minningunni. En núna er farið meira á aðventunni og stundum á jóladag. Mér finnst allir jólasveinarnir ágætir en enginn er í sérstöku uppáhaldi. Mér er Grýla og Leppalúði meira að skapi, skemmtileg hjón þar á ferð.“
Guðrún segist vera of heimakær til þess að vera annars staðar en á Íslandi yfir jólin. „En ef allir færu saman þá væri möguleiki að hægt væri að plata mig hvert sem er! Kærleiksstund er nefnilega það orð sem lýsir jólunum best, að mínu mati,“ segir Guðrún.
Kanilterta að hætti Guðrúnar
2 egg
250 g púðursykur
150 g smjör, við stofuhita
250 g hveiti
2 tsk. kanill
¾ tsk. lyftiduft
Salt á hnífsoddi
250 g rjómi
50 g Lindu suðusúkkulaði
Ofninn hitaður í 200 gráður. Eggin þeytt vel með púðursykrinum og síð an er smjörinu þeytt saman við. Hveiti, kanil, lyftidufti og salti bætt við. Deiginu skipti í fjóra jafna hluta og smurt í hringlaga, lausbotna form með bökunarpappír. Botnarnir bakað ir í ca. 5 mín. Þegar botnarnir eru orðnir kaldir eru þeir lagðir saman með rjóma á milli. Brætt súkkulaði sett yfir efsta botninn. Svo er bara að njóta vel!
-Rebekka Rún Gunnlaugsdóttir
Greinin birtist fyrst í Jólablaði Vikudags sem var í umsjón nemenda í prentmiðlun við Háskólann á Akureyri.