Sálumessa Duruflé einstök tónsmíð
Norðlensku kórarnir Hymnodia og Kammerkór Norðurlands leiða saman hesta sína á tónleikum í Akureyrarkirkju í dag, sunnudaginn 7. nóvember kl. 16. Aðalverkið á tónleikunum er Requiem eða sálumessa eftir franska tónskáldið Maurice Duruflé. Guðmundur Óli Gunnarsson stjórnar, Eyþór Ingi Jónsson leikur á orgel, Hildigunnur Einarsdóttir messósópran syngur einsöng og Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttir leikur á selló.
Að sögn Péturs Halldórssonar, eins kórfélaga í Hymnodiu, er Sálumessa Duruflés einstök tónsmíð fyrir margra hluta sakir. „Það er eiginlega hvorki hægt að segja að þetta sé sígilt verk né nútímalegt. Það sækir vissulega í fornan kirkjusöng en býr yfir djörfum nútímalegum þráðum. Kveikjan að verkinu er líka mjög áhugaverð. Vichy-stjórnin sem ríkti í Frakklandi meðan þýskir nasistar höfðu þar töglin og hagldirnar pantaði verk frá frönskum tónskáldum og átti Duruflé að semja sinfónískt verk. Duruflé ákvað að framlag hans skyldi verða sálumessa. Fasistarnir fengu þó aldrei verkið sem þeir pöntuðu því smíði þess var ólokið þegar Vichy-stjórnin féll 1944. Duruflé fléttar gregorsk söngstef inn í sálumessuna sem gefur henni yfirbragð eilífðarinnar, festunnar og stöðugleikans, sem er andstæða endanleika, sundrungar og upplausnar stríðsins. Við heyrum stórkostlegar andstæður veikra og sterkra kafla í verkinu og förum í lokin til himna. Í miðju stríðsógnarinnar með ofsóknum og dauða er þetta tónverk eins og fræ sem spírar. Upp úr óhreinni moldinni sprettur eilífðarblóm sem minnir okkur á að dauðinn er ekki endanlegur heldur hluti af lífinu, hluti tímans rásar. Lífið sigrar dauðann. Hið góða sigrar hið illa. Enda byrjar tónverkið hvorki né endar. Sjöundarhljómar í byrjun og lok verksins vísa til þess sem áður er nefnt, að eitt tekur við af öðru, nýtt líf kviknar af lífi sem slokknar, hjálpin er nærri og vonin lifir. Eftir lokahljóminn er eins og eitthvað eigi að halda áfram – sem það gerir. Lífið heldur áfram,“ segir Pétur.
Hildigunnur Einarsdóttir flytur einnig tvö einsöngsverk eftir Jón Leifs á tónleikunum og sömuleiðis flytja kórarnir líka þrjú mögnuð kórverk án undirleiks, Requiem eftir Jón Leifs, O Magnum Mysterium eftir bandaríska tónskáldið Morten Lauridsen og O Sacrum Convivium eftir Frakkann Olivier Messiaen. Tilefni efnisskrárinnar er allra heilagra messa sem var 1. nóvember. „Þetta verður þó engin hrekkjavaka heldur tónlistarupplifun sem tónlistaráhugafólk ætti ekki að missa af,“ segir Pétur Halldórsson.