20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Rúv leitar að norðlensku dagskrágerðarfólki
Mánudaginn 5. mars nk. efnir RÚV til prufa fyrir fólk á aldrinum 18-30 ára, sem búsett er á Norðurlandi og hefur brennandi áhuga á dagskrárgerð. Þá verða haldnar prufur í hljóð- og myndveri fyrir framleiðslu þátta fyrir ungt fólk.
Áður munu hafa farið fram prufur fyrir ungt fólk í Reykjavík. Í stefnu RÚV til ársins 2021 er það yfirlýst markmið að auka efnisframboð og bæta þjónustu við ungt fólk. RÚV núll var sett á laggirnar á haustmánuðum til að standa við það markmið.
Prufurnar á Akureyri eru hugsaðar til að freista þess að finna ungt dagskrárgerðarfólk sem búsett er á landsbyggðinni. Þau sem áhuga hafa eru hvött til að koma og láta ljós sitt skína og kasta fram hugmyndum að dagskrárefni sem þau vilja taka þátt í að láta verða að veruleika. Þetta er í fyrsta sinn sem RÚV heldur svo umfangsmiklar prufur í dagskrárgerð fyrir þennan aldurshóp.
„Við fundum fyrir miklum áhuga frá ungu fólki á Norðurlandi þegar við hófum að auglýsa prufur í Reykjavík. Þess vegna var ákveðið að endurtaka leikinn á Akureyri nokkrum dögum síðar,“ segir Snærós Sindradóttir, verkefnastjóri RÚV núll.
„Ég efast ekki um að fyrir norðan leynist hæfileikaríkt fólk sem vonandi getur hjálpað okkur að stórbæta þjónustuna RÚV við ungt fólk.“