Óvæntur gestur borðar á Fjölsmiðjunni
Guðni Th. Jóhannesson forseti var í heimsókn á Akureyri í gær. Hann notaði tækifærið og snæddi hádegisverð á Fjölsmiðjunni, ásamt forsetaritara og fastagestum staðarins. Í boði var var dýrindis hrossafile, með béarnaise, kartöflum og hrásalti. Þessu góðgæti var svo skolað niður með ísköldu vatni. Að sögn Erlings Kristjánssonar forstöðumanns Fjölsmiðjunar var hringt frá skrifstofu forseta daginn áður og í þvi símtali kom fram að forsetinn óskaði eftir að borða á staðnum. Annar viðbúnaður var ekki.
Fastagestir tóku auðvitað vel á móti Guðna og Örnólfi forsetaritara. Tvær franskar stúlkur sem eru að kynna sér starfsemi Fjölsmiðjunnar vegna náms sem þær leggja stund á í heimalandinu vissu vart hvaðan á þær stóð veðrið þegar forseti Íslands var mættur til myndatöku með þeim. Þær höfðu á orði að svona gæti alls ekki gerst í Frakkalandi nema að áður hefði komið fjöldi lífvarða og sérsveitamanna. Fyrst til þess að taka staðinn út og svo hefðu trúlega komið með forsetanum yfir 20 lífverðir til að tryggja að enginn kæmist nálægt gestinum. Myndatökur verið með öllu óheimilar og líklega fangelsisvist fyrir að reyna að taka mynd.
Þær fengu hinsvegar, eins og sjá má á meðfylgjandi myndum teknum af Hannesi Péturssyni starfsmanni Fjölsmiðjunnar, myndir af sér með forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni, og óhætt er að segja að vel fari á með þeim.