20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Opnun í Verksmiðjunni á Hjalteyri 20. maí
Myndlistarsýningin „Leiðni leiðir” eftir Sigurð Guðjónsson opnar í Verksmiðjunni á Hjalteyri laugardaginn 20. maí, kl. 14:00.
Listamaðurinn Sigurður Guðjónsson hefur umbreytt 2000 fermetra verksmiðjurými í fjölskynjunarverk hreyfingar og hljóðs. Verk sem leikur með tíma og orku. Sigurður vinnur út frá miðju hússins lóðrétt upp og niður þrjár hæðir og hugsar sýninguna sem einn stóran skúlptúr samofin byggingunni sjálfri. Fyrir honum er verksmiðjan eitt stórt hljóðumhverfi, þannig að vængirnir – gamlar mjölgeymslur, austan og vestan megin – væru þá sem sitthvor rásin, hægri og vinstri, í einskonar stereo-mynd. Í milliloftinu eru holur en þar nær hljóð að smjúga inn á milli og elta gesti á ferð sinni í gegnum verkið. Hljóðheimur sýningarinnar er unninn í lögum og á uppruna sinn í rafhljóðum sem koma úr myndefninu sjálfu, sem og upptökum af endurómi í innviðum flygils, sem Tinna Þorsteinsdóttir leikur á. Það má því segja að hljóðmyndin eigi í samræðu við hljóminn í verksmiðjunni sjálfri og vídeóið við rými hennar.
Umsjón með sýningunni hefur Gústav Geir Bollason. Sýningin stendur til 16. júlí, 2023.
Sigurður Guðjónsson (f. 1975) er þekktastur fyrir tímatengd verk sem rannsaka manngerðar vélar og tækniminjar, í tengslum við eðlislæga þætti þeirra. Með því að sameina mynd og hljóð með áhrifamiklum hætti, býr listamaðurinn til flókin, marglaga verk sem skapa sláandi upplifun fyrir áhorfandann. Sigurður hlaut Íslensku myndlistarverðlaunin árið 2018 fyrir sýninguna Innljós, sem samanstóð af vídeóinnsetningum í Sankti Jósepsspítala í Hafnarfirði. Sigurður Guðjónsson var fulltrúi Íslands á Feneyjartvíæringnum 2022.