20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Öllu tjaldað til á sannkölluðum nostalgíutónleikum
-
Tónlistarhátíðin Eyrarrokk verður haldin í fyrsta sinn á Verkstæðinu á Akureyri um helgina.
„Þetta er okkar framlag til að auka við annars fjölbreytt tónlistarlíf á Akureyri,“ segja þeir Rögnvaldur Bragi, Sumarliði Helgason og Helgi Gunnlaugsson sem standa að tónlistarhátíðinni Eyrarrokk sem fram fer á Verkstæðinu við Strandgötu 53 á Akureyri, þar sem í eina tíð var Oddviti og síðar Norðurslóðasafn.
Helgi keypti húsið fyrir tæpum tveimur árum, hann rekur þar Vitann – mathús virka daga, en í öðrum helmingi hússins er hægt að skella upp einkasamkvæmum, böllum og tónleikum og hefur hann róið á þau mið hvað markaðssetningu varðar. Nafn hússins, Verkstæðið dregur nafn sitt af starfsemi sem áður var í húsinu, en þarna var BSA-verkstæðið til húsa fyrir margt löngu.
Vonandi árlegur viðburður héðan í frá
Eyrarrokk er nú haldið í fyrsta sinn, „en vonandi ekki það síðasta,“ segir Rögnvaldur Bragi. Þeir stefna allir ótrauðir að því að um árlegan viðburð verði að ræða í bæjarlífi Akureyringa og gesta þeirra. Öllu er tjaldað til nú þegar fyrsta Eyrarrokkið er í boði, tónleikar bæði á föstudags- og laugardagskvöld og fjöldi hljómsveita mun stíga á svið. „Þetta verða nostalgíutónleikar,“ bætir hann við, en sjálfur á hann minningar frá því fyrir um það bil 30 árum síðan þegar nokkrar hljómsveitir tóku sig saman og efndu til sameiginlegra tónleika. „Það gekk ekki upp öðruvísi en að hljómsveitirnar tækju sig saman, það var of dýrt og mikið fyrirtæki að ein hljómsveit byði upp á tónleikar. Þetta er nokkurn vegin sama módelið sem við erum með núna, safna saman nokkrum þekktum böndum flestum úr fortíðinni og bjóða upp á dúndurgóða tónleika.“
Sumarliði bætir við að staðan á tónleikamarkaði sé með svipuðum hætti nú, það væri vart á færi þessara hljómsveita að henda upp tónleikum. „Ég er sannfærður um að það verður mikil stemmning á þessum tónleikum, þarna eru hljómsveitir sem gerðu garðinn frægan áður fyrr og marga fýsir eflaust að sjá stíga á svið nú fjölmörgum árum síðar. Það má í einhverjum tilvikum segja að þetta sé einstakt tækifæri að berja þessar sveitir augum og jafnvel það síðasta,“ segir hann.
Góð viðbrögð og við ákváðum að kýla á þetta
Hugmyndin að tónleikahaldinu kviknaði við hefðbundnar samræður, þeir voru að velta vöngum yfir hvað gæti verið gaman að bjóða upp á fjölbreyttara tónleikahald í heimabænum, Rögnvaldur minntist liðinna daga þar sem margar hljómsveitir komu saman og héldu tónleikar og Sumarliða langaði að upplifa þessa stemmningu líka. „Þannig að við ákváðum að gera þetta bara, skrifuðum bréf til 16 hljómsveita og könnuðum með áhuga og skemmst er frá því að segja að 12 svöruðu svo til strax og voru til í tuskið. Áhugann vantaði greinilega ekki. Svo við ákváðum að kýla á þetta,“ segja þeir.
Tónleikar verða bæði á föstudags- og laugardagskvöld og hefjast kl. 20. bæði kvöldin en húsið opnar klukkutíma fyrr. Á föstudagskvöldinu eru það hljómsveitirnar Chernobyl Jazz Club, Lost, Tvö dónaleg haust, Dr. Gunni og Fræbblarnir sem eiga sviðið. Á laugardagskvöldinu stíga svo á stokk Biggi Maus, DDT Skordýraeitur, Dúkkulísurnar, Helgi og hljóðfæraleikararnir, Langi seli og skuggarnir og Elín Helena. Hægt er að kaupa miða á hvort kvöld fyrir sig eða bæði.
„Þetta verður virkilega skemmtilegt, góða blanda af rokki, popprokki, rokkabillýi og allskonar fleira, bæði fjölbreyttar hljómsveitir og tónlistarstefnur,“ segir þeir félagar brattir og stefna á svipaða tónlistarhátíð að ári, „nema við töpum miklu, þá verður þetta á fimm ára fresti,“ segir Sumarliði. „Við stefnum bara að því að fá upp í útlagðan kostnað, það nægir okkur og svo auðvitað að gestirnir skemmti sér konunglega.“
/MÞÞ