Ný ljóðabók eftir Stefán Þór
Út er komin ljóðabókin Mar eftir Stefán Þór Sæmundsson. Bókin er að mörgu leyti framhalds- eða systurbók Upprisu sem Tindur gaf út vorið 2019 og vakti talsverða athygli. Ljóð Stefáns eru fjölbreytt að efni og formi, stundum meitluð í bragarhætti en iðulega er byggingin frjálsleg eða tilraunakennd. Ljóðin í Mar eru öll samin á síðasta ári.
Í tilkynningu segir að þau fjalli um hyldjúpan sársauka og botnlausa fíkn, mölbrotna sjálfsmynd og hreina sturlun. En þarna séu líka ljúfsárar bernskumyndir, ísmeygileg ádeiluljóð þar sem glansmyndir samtímans koma við sögu, innlit í heim unga fólksins, fannbarðar náttúrulýsingar og léttsýrð gamankvæði. Stefán Þór kallar sig endurborið ungskáld. Hann þýddi fjölmargar bækur á yngri árum, t.d. Jurassic Park, gaf út bókina Hræring með súru slátri og var meðhöfundur bókarinnar Þeir vörðuðu veginn.
Auk þess birti hann fjölmarga pistla, smásögur og annað efni í dagblöðum og tímaritum og starfaði lengi sem blaðamaður. Stefán Þór er íslenskukennari við Menntaskólann á Akureyri og ljóðskáld á síðkvöldum. Bókin fæst hjá höfundi með því að senda á netfangið stefan@ma.is og von bráðar í verslunum Pennans Eymundsson.
Nokkur dæmi og brot úr bókinni:
Hér er hryggðarmynd negld niður með föstu formi og óvenjulegu rími:
Á gólfinu kisa hvæsir
klónum læsir í sófa.
Húkir móðir hryggðar
horfin dyggð með öllu
eymd í ásýnd blasir
enn er glas á borði
tíminn orðinn tómur
týndur rómur lífsins.
Og limra sem endurómar hið „geðveika“ og „truflaða“ úr slúðurdálkum fjölmiðla:
Það var alveg truflað hjá Tómasi
teboð með kökum og frómasi.
Þar athygli vakti
og úr öllum takti
geðveikur búlgarskur blómvasi.
Bernskumynd sem margir ættu að kannast við:
Þessar hlýju
hendur,
hrjúfi rómur,
neftóbak
og raspaðir
vangar.
Hér er janúarljóð, kuldaleg vetrarmynd í frjálsu formi:
Sólinni hrýs
hugur við
að skína
þegar vindurinn
feykir
ísköldum tjásum
upp af
fannbörðum
fjallatoppum.
Og titilljóð bókarinnar, Mar:
Eins og marblettur
á líkama
dofnar sorgin
nema ítrekað
sé reitt til höggs.
Auðmýktin
er fjólublá.
Undir niðri
ádráttur
um fölgula von.
Loks Meikóver:
Hún hristi af sér
flyðruorðið
og fór í megrun
allsherjar meikóver
og andlitsfegrun:
teygð öll og toguð
uns eggjandi langir
leggirnir urðu
og fitan öll soguð
úr framstæðum maga
en höggvið og sagað
af höku og nefi
í brjóstin var blásið
og bótox í hrukkur
en öllum til furðu
var bros hennar frosið.