20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
„Núna elska ég Ísland og sérstaklega Húsavík“
Roselien Beerten er 31 árs ljósmyndari frá Belgíu sem hefur tekið ástfóstri við Húsavík. Hún kom fyrst í bæinn fyrir 12 árum síðan sem skiptinemi og hefur haldið góðu sambandi alla tíð síðan. Hún leit við á skrifstofu minni á Húsavík á dögunum og við áttum skemmtilegt spjall.
Hún verður á Húsavík í allt sumar og er að vinna hjá hvalaskoðunarfyrirtækinu Gentle Giants. Auk þess ætlar hún að taka að sér ljósmyndaverkefni ef fólk hefur áhuga. Hún er einstaklega fær í því að vinna með börn og hefur sérstakt lag á því að fanga einstök augnablik „á filmu“ þegar börnin virðast ekki vita af henni. Þá segist hún alltaf vera tilbúna í brúðkaupsmyndatökur.
„Ég hef alltaf haft áhuga á ljósmyndun, ég byrjaði bara að leika mér með myndavélina þegar ég var yngri. Svo kom ég hingað og Haffi er ljósmyndari, svo ég var mjög hrifin að því,“ segir Roselien og vísar þarna til þess að árið sem hún dvaldi sem skiptinemi á Húsavík bjó hún hjá Elínu Sigurðardóttur og Hafþóri Hreiðarssyni eða Ellu og Haffa. Haffi er eins og flestir Húsvíkingar þekkja einn allra færasti og afkastamesti ljósmyndarinn á svæðinu og þó víðar væri leitað og hefur eflaust getað kennt henni eitthvað.
Aðspurð hvers vegna Roselien valdi Ísland þegar hún ákvað að verða skiptinemi segist hún hafa átt að skrifa niður þrjú lönd sem hún óskaði eftir að dvelja á þegar hún sótti um. Hún skrifaði niður Nýja Sjáland og Ísland tvisvar sinnum. Hún hafi síðan fengið skilaboð um að hún gæti fengið inni hjá „fóstur“ fjölskyldu á Húsavík og ekki verið lengi að stökkva á það og sjái ekki eftir neinu.
Roselien útskýrir að hún hafi verið mjög ákveðin í að koma til Íslands, sem dæmi um það hafi hún á þessum tíma verið grænmetisæta og að hún hafi heyrt að það gæti verið erfitt á Íslandi. „Ég þurfti að skrifa auka bréf þar sem ég útskýrði að það yrði ekki vandamál og byrjaði að borða kjöt á ný,“ sagði hún.
„Í vinahóp mínum í Belgíu vissi engin neitt um Ísland, það eina sem við í bekknum mínum þekktum var orðið Reykjavík – það var líka orðið sem enginn gat borið fram. Meira vissi ég ekki um landið og það þótti mér spennandi. Það vakti áhuga minn að þetta var eina landið sem engin vissi neitt um,“ segir hún en bætir svo við að reyndar hafi hún þekkt hljómsveitina Sigurrós, enn ein sönnun þess hve íslensk tónlist er góð landkynning.
Roselien segir að Íslendingar séu ekkert sérstaklega opnir og það geti verið erfitt að kynnast þeim náið. „Ég varð að læra íslenskuna fyrst því fólk var oft feimið við að tala við mig á ensku. En það er allt mjög breytt núna. Ég tala reyndar ekkert frábæra íslensku, kannski svona barna íslensku en ég geri mitt besta til að læra og það tekur alltaf tíma að kynnast fólki náið. Það er erfiðasti þröskuldurinn. En þegar þú ert komin inn hjá fólki,- þá ertu komin inn,“ segir hún og hlær.
Roselien hefur komið margoft til baka til Húsavíkur og heldur sérstaklega upp á að koma um jól. „Það er uppáhaldstími minn hér. Ég get ekki talið hversu oft ég hef komið, ekki alveg á hverju ári en það fer nærri. Einu sinni kom ég með alla fjölskylduna mína og ein jólin kom ég hingað með bræðrum mínum. Svo hefur fjölskylda mín hér á Húsavík líka heimsótt mig til Belgíu og við ferðuðumst saman.“
Hún segir erfitt að setja fingur á hvað það sé sem heilli hana svona mikið við Ísland. „Það er svo rólegt hérna og maður kemst í burtu frá hinu hefðbundna lífi. Það er allt eitthvað svo einfalt og auðvelt og náttúran er alveg einstök sem kemur sér vel fyrir myndirnar mínar," útskýrir hún.
Það fer ekki framhjá mér að Roselien talar afar hlýlega um íslensku fjölskyldu sína og að hún hafi tengst henni sterkum tilfinningaböndum. „Þau eru klárlega mín önnur fjölskylda, og ég tala einfaldlega um þau sem fjölskyldu mína því mér líður virkilega eins og þetta sé fjölskyldan mín. Frábærir foreldrar og þrjár súper systur og ekki bara þau – öll stórfjölskyldan hefur tekið mér eins og ég sé ein af þeim, ömmur, afar, frænkur og frændur. Þetta er afar hlý fjölskylda. Ég held að ég hljóti að vera ein af allra heppnustu skiptinemum sögunnar. Þau gáfu mér hlýlegt heimili,- sem var mjög gott í kuldanum hér á Íslandi og ég held að ég hefði aldrei haldið út í heilt ár í litlum bæ á Norður Íslandi án þeirra. Núna elska ég Ísland og sérstaklega Húsavík, allt þeim að þakka.“
Roselien segist líka hafa eignast mikið af vinum sem hún haldi sambandi við. Hún dregur sérstaklega fram bestu vinkonu sína hana Kötu (Katrín Kristjánsdóttir). „Það er auðvitað erfitt að halda sambandi við fólk þegar maður býr svona langt í burtu en Kata er besta sönnunin fyrir mér að það sé hægt,“ segir hún.
Roselien er með master í grafískri hönnun frá Belgíu og lærði ljósmyndun í Amsterdam. „Ég hef tekið að mér ýmis ljósmyndaverkefni en það er mjög erfitt að fá fast starf sem ljósmyndari. Ég hef líka fengist við kennslu,- ljósmynda og lista kennslu og verið með vinnustofur fyrir krakka. Ég hef mjög gaman af því, það hefur gefið mér heilmikið."
Hún ætlar að bjóða upp á myndatökur í sumar eins og hún hefur gert í Belgíu og vonast til þess að Húsvíkingar taki henni vel og nýti þjónustu hennar. Hún hefur nú þegar tekið að sér að mynda á listahátiðinni Skjálfandi sem fram fór fyrir skemmstu og tókst vel til. Hún segist hafa mest gaman af því að mynda börn, sérstaklega þegar þau vita varla af henni og eru upptekin í leik. Hún gerir líka hefðbundnar stúdíó portrett myndir en segir það gæða myndirnar meira lífi ef þær eru teknar í náttúrulegu umhverfi barnanna.
„Ég legg áherslu á að lesa í fólk og fanga augnablikið í hreyfingum þeirra, sérstaklega þegar ég er að mynda börn. Ég nýt þess best að mynda börn þegar þau eru í sínu eigin umhverfi þegar þau eru bara upptekin af því að vera börn. Þannig myndir held ég líka að séu verðmætustu minningarnar, ef maður fangar barnið eins og það raunverulega er. Þess vegna finnst mér best þegar börnin vita ekki af myndavélinni. Stundum geta börn verið svo upptekin af leik sínum að þau gleyma algjörlega umhverfinu sem þau eru í hverju sinni. Ég elska það – svipbrigði þeirra verða svo ekta,“ útskýrir Roselien Beerten í viðtali við Vikudag.
Fleiri myndir eftir hana má skoða á heimasíðu hennar með því að smella hér.