20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Notuðu samverukvöldið til að læra að búa til saltkringlukonfekt
mth@vikubladid.is
„Þetta var virkilega skemmtilegt kvöld sem við allar höfðum gaman og gagn af,“ segir Hrönn Arnheiður Björnsdóttir ritari Kvenfélagsins Iðunnar í Eyjafjarðarsveit. Kvenfélagskonur komu saman eina kvöldstund og bjuggu til saltkringlukonfekt.
Hrönn Arnheiður segir að Iðunnarkvöld séu haldin einu sinni í mánuði, þá hittist félagskonur og geri eitthvað saman, „eða ekki neitt,“ segir hún, en stundum nægi að hittast og spjalla og eiga góða samverustund.
„Að þessu sinni notuðum við Iðunnarkvöldið til að læra og gera saman saltkringlukonfekt sem við stefnum á að pakka inn og senda frá okkur með fundarboði til að bjóða konur í „Hrafnagilshreppi hinum forna“ velkomnar á vorfundinn okkar sem við ætlum að halda 20. maí næstkomandí í Félagsborg, Skólatröð 9.“
Í kaffipásunni fengu Iðunnarkonur fræðslu um tínslu og þurrkun jurta hjá Siggu Sólarljósi, fyrrverandi formanni félagsins. Það var liður í undirbúningi fyrir jurtatínslu félagsins sem verður í vor og sumar en þá ætla kvenfélagskonur að safna jurtum í gómsætt jurtate.
Njótum líðandi stundar
Hrönn Arnheiður segir að alltaf sé pláss fyrir nýjar konur í kvenfélög um allt land en þau séu fyrir allar konur sem vilji láta gott af sér leiða. „Með því að taka þátt í störfum kvenfélags þá gera konur líka helling fyrir sjálfa sig, það eru ýmis konar námskeið í boði, viðburðir og ferðir í skemmtilegum hópi. Við Iðunnarkonur komum saman og höfum gaman, hvort heldur er í sjálfboðaliðastarfi eða á Iðunnarkvöldum þar sem við lyftum ýmist kaffibollum eða glösum. Við erum að njóta líðandi stundar með skemmtilegum og áhugaverðum konum á öllum aldri og viljum bjóða öðrum konum með okkur í félagsskapinn, þ.e. í Kvenfélagið Iðunni, í Eyjafjarðarsveit,“ segir hún.
Allar konur á Eyjafjarðarsvæðinu eru velkomnar að vera með. „Að taka þátt í kvenfélagi getur auðveldað konum að verða virkari þátttakendur í samfélaginu og þannig líka styrkt samfélagið í heild,“ segir hún en Iðunn hefur aðsetur í Laugaborg og heldur úti facebooksíðunni Kvenfélagið Iðunn. Einnig er hægt að spyrjast fyrir um starfsemina með því að skrifa bréf á netfangið idunn@kvenfelag.is.