Nemendur í Síðuskóla í samstarfi við Dani
Sjötti bekkur í Síðuskóla á Akureyri hefur verið í heldur óvenjulegu verkefni í vetur en krakkarnir hafa unnið að samstarfi við grunnskólanemendur í Danmörku. Nemendurnir í Síðuskóla fóru í heimsókn til Danmerkur í byrjun apríl en mjög sjaldgæft er að svo ungir krakkar fara í nemendaferðir erlendis. Danirnir eru nú staddir hér á Akureyri í heimsókn og verða fram á laugardag. Jóhanna Ásmundsdóttir, kennari í Síðuskóla, hefur umsjón með verkefninu en þær Jónína Sveinbjörnsdóttir og Helga Dögg Sverrisdóttir hafa verið henni innan handar.
Nemendurnir í Síðuskóla fóru í heimsókn til Danmerkur í vikunni fyrir páskafrí ásamt þremur kennurum en Danirnir búa í Ryomgård sem er lítill bær á Jótlandi með 2500 íbúa, staðsettur u.þ.b. 30 km austan við Árósa. Í allan vetur hafa krakkarnir unnið saman og stofnuðu sameiginlega heimasíðu þar sem öll þau verk sem unnin voru á Akureyri og í Danmörku voru sýnd. Danirnir voru staddir í heimsókn á Akureyri í síðustu viku en danski hópurinn samanstóð af 57 nemendum og sex kennurum sem fylgja þeim.
Jóhanna Ásmundsdóttir kennari í Síðuskóla hefur umsjón með verkefninu og segir það hafa gengið afar vel. „Í heildina þá hefur þetta verkefni komið ótrúlega vel út. Nemendur hafa kynnst milli landanna og eru farnir að skrifast á. Danskan þjálfast og enskan líka þar sem hefur komið í ljós að íslensku börnin standa mun betur að vígi en þau dönsku,“ segir Jóhanna, en lengri umfjöllun má nálgast í nýjasta tölublaði Vikudags.